„Við reiknum nú með að nýta nýju vélarnar við næstu uppsetningu hjá LH, sem verður í byrjun árs 2025. Ekki hefur verið ákveðið hvaða leikrit verður sett upp en það verður hressandi farsi. Búningadeildin getur með þessu komið sér upp góðu búi af því sem þarf,” segir Dómhildur Antonsdóttir hjá Leikfélagi Húsavíkur, en félagið fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU.

Ronja Ræningjadóttir.
Ekki meira flakk
Styrkurinn er eyrnamerktur kaupum á nýjum saumvélum fyrir Leikfélag Húsavík sem verða notaðar til að framleiða búninga fyrir leiksýningar. „Styrkurinn mun nýtast okkur á marga vegu, t.d. þurfum við ekki lengur að flakka á milli heimilis og leikhúss með eigin vélar og fylgihluti, einnig þurfum við oft að aðstoða leikmyndahópinn með saumaskap. Svo hefur nú komið fyrir að laga hefur þurft frumsýningardress fyrir einhvern á síðustu stundu,“ segir Dómhildur.

Ávaxtakarfan.
Eftirminnilegar sýningar
Leikfélag Húsavíkur var stofnað árið 1900 og verður því 125 ára á næsta ári, en elstu heimildir segja að það hafi verið starfandi árið 1886. Á þessum tíma hefur leikfélagið sett á svið um 100 sýningar.
Dómhildur segir margar eftirminnilegar sýningar í sögu Leikfélags Húsavíkur. „Af búningasaumaskap er líklega eftirminnilegast þegar Ronja ræningjadóttir var sett upp og búningar saumaðir úr 100 metra gólftuskuefni,“ segir hún og bætir við. „Svo má nefna Alt Heidelberg og Ávaxtakarfuna. Margar sýningar hafa verið stórar og mannmargar og þá hefur líka þurft mikið að laga og breyta búningum.“
Hún segir umfang leiksýninga vera mismikið. „Það er afskaplega mismunandi milli leikára. Við reynum að vera með ólík leikrit á milli ára, allt frá nokkrum einstaklingum og upp í 20-30 þó að það sé sjaldnar. Eins er oft mikill saumaskapur í leikmunum og sviðsmynd,“ segir Dómhildur.

Alt Heidelberg.