Burðarþolshönnun útsýnispalls á Bolafjalli

05.12.2019

Fréttir
A cliff overlooking  a sea

Aðstæður á staðnum eru afar krefjandi og mikil áskorun fyrir hönnuði. Mynd: Sei Studio.

EFLA sá um burðarþolshönnun á 60 metra löngum útsýnispalli sem fyrirhugað er að reisa á Bolafjalli fyrir ofan Bolungarvík. Aðstæður á staðnum eru afar krefjandi og mikil áskorun fyrir hönnuði sem þurftu að taka tillit til mikilla vinda og erfiðra vinnuaðstæðna. Lögð er rík áhersla á að halda svæðinu að mestu ósnortnu að framkvæmdum loknum.

Burðarþolshönnun útsýnispalls á Bolafjalli

Fyrr á árinu stóð Bolungarvíkurkaupstaður fyrir hönnunarsamkeppni vegna mótunar landsvæðis á Bolafjalli en sveitarfélagið vinnur að metnaðarfullu átaki við uppbyggingu áfangastaða innan þess. Bolafjall er afar vinsæll viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum og frá fjallinu er stórbrotið útsýni. Áhugi meðal hönnuða var mikill en svo fór að teymi arkitektastofanna Sei, Argos og Landmótunar bar sigur úr bítum með tillögu sem fól meðal annars í sér 60 metra langan útsýnispall sem byggður yrði í halla niður stórstuðlaðan klettahamarinn, í um 600 metra hæð yfir jafnsléttu.

Ljóst var að útfærsla tillögunnar yrði krefjandi á marga vegu og full áskorana fyrir hönnuði en EFLA sá um burðarþolshönnun mannvirkisins.

Yfirborðsmælingar með dróna

Staðsetning útsýnispallsins var hönnuðum mikil áskorun en pallinn þurfti að festa utan í þverhníptan klettahamarinn. Hönnuðum voru þröngar skorður settar með að festingar skyldu ekki vera sjáanlegar ofan dekks pallsins og því ekki mögulegt að hengja hann fram yfir klettabrúnina.

Til að uppfylla þessar kröfur þurftu allar festingar og burðarvirki pallsins að vera staðsettar undir honum. Niðurstaðan varð sú að bora um hundrað bergbolta í klettahamarinn, jafnt til gerðar tengipunkta fyrir burðarvirkið, sem og að negla stuðla bergsins saman og tryggja þar með festu þeirra.

Þegar tengipunktar burðarvirkisins voru ákveðnir var mikilvægt að næg festa yrði til staðar og því var stuðst við þrívíddarlíkan sem gert var með yfirborðsmælingum af klettahamrinum þar sem gögnum var safnað með dróna. Með hjálp líkansins mátti forðast að tengipunktar hittu á sprungur, laus jarðlög eða klettanibbur.

Vindgreining

Önnur áskorun fyrir hönnuði voru gífurlegir veðuröfgar umhverfis Bolafjall. Gera þarf ráð fyrir mikilli snjósöfnun á pallinum, þar sem hann stendur fyrir neðan klettabrúnina, fyrir opnu hafi og reynsla heimamanna á þá vegu að mikil ísing geti myndast á svæðinu.

Mest verður pallurinn um það bil 2,5 metra neðan klettabrúnar og því ljóst að snjófarg getur orðið umtalsvert. Það álag bliknar þó í samanburði við vindálagið sem reikna má með að reyni á pallinn.

Hjá EFLU starfa sérfræðingar á sviði vindgreininga og sáu þeir um að gera reiknilíkan af vindafari á svæðinu. Þar sem fjallið stendur fyrir opnum sjó og í ríflega 600 m hæð mátti fyrirfram búast við miklum vindi en vindgreiningin leiddi í ljós að vindhraðinn magnaðist upp um 35% á klettabrúninni frá því sem annars mætti búast í þeirri hæð sem pallurinn er byggður. Þar sem vindþrýstingur er háður vindhraðanum í öðru veldi þýðir þetta ríflega 80% mögnun vindálags, en pallurinn er hannaður fyrir það álag. Það ætti því enginn að óttast öryggi sitt þegar sá hinn sami stendur við glerhandriðið fremst á pallinum og nýtur útsýnisins yfir Ísafjarðadjúpið.

Gert er ráð fyrir að bygging pallsins hefjist næsta sumar og verði lokið í október 2021.