Byggjum til framtíðar

26.06.2025

Fréttir
Byggingaframkvæmdir.

EFLA tók þátt í dagskrá málþingsins „Byggjum til framtíðar – með gæði, heilnæmi og sjálfbærni að leiðarljósi“ sem fram fór nýverið í Háskólanum í Reykjavík. Málþingið var lokahnykkur á vel heppnaðri alþjóðlegri ráðstefnu, Healthy Buildings 2025, sem fjallaði um sjálfbærni og heilnæmi bygginga á breiðum grundvelli.

Þverfaglegt samtal

Alexandra Kjeld, sérfræðingur hjá EFLU, flutti á málþinginu erindi um verðmæti innan byggða umhverfisins, um kolefnisspor bygginga og hvaða markmiðum raunhæft væri að ná á næstu árum.

Málþingið var haldið í samstarfi við fjölda aðila á byggingarmarkaði á Íslandi. Þar var rætt um hvernig hægt væri að tryggja að byggingar framtíðarinnar endist, standi undir kröfum um gæði og vistvæna hönnun og styðji við heilsu og vellíðan þeirra sem í þeim búa og starfa.

Markmið málþingsins var að efla þverfaglegt samtal um áskoranir og tækifæri við að skapa sjálfbær, græn og heilnæm mannvirki, húsnæði sem ekki einungis standist tímans tönn, heldur stuðli að betri lýðheilsu og félagslegum gæðum í samfélaginu.

Minna viðhald, minni sóun

Á málþinginu komu fram mörg áhugaverð erindi frá afar ólíkum áttum, þ.e. frá sjónarhóli lækna, byggingarvöruframleiðenda, ráðgjafa og verktaka og fram komu áhugaverðar reynslusögur frá eigendum og rekendum fasteigna.

Á málþinginu var meðal annars fjallað um hvernig hægt væri að tryggja endingargóðar byggingar sem krefjast minna viðhalds og valda minni sóun, hvernig vistvænir efnisvalkostir gætu nýst án þess að fórna gæðum eða innivist, og hvernig loftgæði og önnur heilsutengd atriði gætu orðið lykilforsendur í hönnun og rekstri bygginga. Þá var einnig velt upp spurningunni um hver staðan væri í dag og hvert við viljum stefna í framtíðinni.

Hægt er að horfa á upptöku af þessu málþingi hér.