Dagur verkfræðinnar er í dag

19.04.2024

Fréttir
Verðlaunagripur.

Dagur verkfræðinnar er í dag, föstudaginn 19. apríl, og verður hann haldinn hátíðlegur á Hótel Reykjavík Nordica. Dagskráin hefst kl. 13:00 og stendur til kl. 17:00. Þar verður fjölbreytt dagskrá með fyrirlestrum og kynningum fjölda sérfræðinga á sviði verkfræði. Auk þess verður Teningurinn, viðurkenning Verkfræðingafélags Íslands fyrir árið 2023, afhentur við þetta tilefni.

Sérfræðingar EFLU fræða

Alls munu sjö sérfræðingar EFLU flytja fimm erindi á Degi verkfræðinnar. Þetta eru þau Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur, Ágústa Steinunn Loftsdóttir, eðlisfræðingur, Kristinn Arnar Ormsson, raforkuverkfræðingur, Örn Dúi Kristjánsson, vindeðlisfræðingur, Nína Gall Jörgensen, byggingarverkfræðingur, og Marín Lilja Ágústsdóttir, vélaverkfræðingur.

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur, er með tvö erindi þar sem hann fjallar annars vegar um áskoranir við framkvæmdir á nýjum hraunum í erindi sem kallast Að hemja hraunið. Hins vegar fjallar hann um Njarðvíkuræð og fleiri innviði í erindi sem kallast Eldgosið í febrúar 2024.

Ágústa Steinunn Loftsdóttir, eðlisfræðingur, og Kristinn Arnar Ormsson, raforkuverkfræðingur, fjalla um skýrslu sem tekur til allra verðþátta raforkuverðs, framleiðslu, sölu, dreifingar, flutnings og upprunavottorða. Einnig verða dæmi um þróun orkuverðs til heimila og fyrirtækja borin saman við raforkuverð erlendis. Erindið þeirra kallast Þróun raforkuverðs.

Loftmengun og innivist

Örn Dúi Kristjánsson, vindeðlisfræðingur, og Nína Gall Jörgensen, byggingarverkfræðingur, fjalla um umferðartengda loftmengun og hvernig hægt er að meta losun og dreifingu hennar. Fjallað verður um helstu óvissuþætti í slíkum útreikningum, hvernig hægt er að lágmarka þá og hver áreiðanleiki útreikninganna er. Dæmi verður tekið af þeirri aðferðafræði sem við höfum beitt til að reikna út loftmengun frá fyrirhugaðri Sundabraut, en vinna við umhverfismat hennar stendur nú yfir. Erindið kallast Útreikningar á loftmengun, dæmi af Sundabraut.

Marín Lilja Ágústsdóttir, vélaverkfræðingur, og Nína Gall Jörgensen, byggingarverkfræðingur, fjalla um þætti sem hafa áhrif á gæði innivistar, upplifun notenda og þá aðferðafræði sem er beitt við hönnun. Áhersla er lögð á að kynna notagildi straumfræði hermanna við hönnun á flóknari rýmum til að tryggja góða innivist við krefjandi aðstæður. Sýnt verður hvernig straumfræðihermanir geta notast sem viðbót við hefðbundnari aðferðir og sýnd verða dæmi um greiningar í ólíkum rýmum. Erindið kallast Hámörkun gæða innivistar.

EFLA fagnar þessu framtaki hjá Verkfræðingafélagi Íslands og viðleitni félagsins til að að kynna verkfræðina, spennandi verkefni og störf á því sviði og ekki síst að efla tengsl og samheldni meðal íslenskra verkfræðinga og tæknifræðinga.