Draga úr kolefnislosun í byggingarstarfsemi

14.06.2024

Fréttir
Hafið séð frá ströndu.

Rafræn vefkynning þar sem kynnt verða ný tækifæri til stuðnings við að draga úr kolefnislosun í byggingarstarfsemi verður þann 17. júní kl. 9 til 10. Er þetta hluti af norrænu samstarfsverkefni þar sem EFLA er meðal þátttakenda.

Stuðningur og ráðgjöf

Fyrirhugaðar eru vinnustofur í haust sem miða að því að draga úr loftslagsáhrifum bygginga með því að veita ráðgjöf um að koma á stefnu og markmiðum fyrir hvert verkefni. Á vefkynningunni fá verktakar og aðrir byggingaraðilar kynningu á því hvernig eigi að draga úr kolefnislosun í byggingaverkefnum. Þar gefst þátttakendum tækifæri til að spyrja sérfræðinga spurninga þessu tengdu auk þess að fá almenna fræðslu.

Markmið þessa samstarfsverkefnis verður að flýta fyrir samdrætti í kolefnislosun í bygginga- og mannvirkjageiranum. Að sögn forsvarsmanna er skortur á fjármagni og vöntun á betri starfsvenjum ástæða þess að byggingargeirinn á enn langt í land með að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Þetta kallar á utanaðkomandi aðstoð og stuðning til að skilgreina rétt markmið fyrir verkefnin og til að innleiða góðar lausnir sem draga markvisst úr losun.

Hægt verður að skrá sig til leiks síðar í sumar þar sem fólki gefst tækifæri að taka þátt í vinnustofum sem og/eða skrá verkefni sem eru til fyrirmyndar á Norðurlöndunum. Nánari upplýsingar verða kynntar síðar.

Hægt er að skrá sig á vefkynninguna þann 17. júní á þessari vefsíðu.