Drónar vöktu athygli á Tæknidegi

09.10.2019

Fréttir
A man demonstrating a drone to an audience

Drónar EFLU vöktu mikla athygli á Tæknidegi fjölskyldunnar.

EFLA tók þátt í Tæknidegi fjölskyldunnar sem fór fram í Neskaupstað um síðustu helgi. Gestir sem heimsóttu kynningarbás EFLU fræddust um verkefni sem hafa verið unnin með drónum.

Drónar vöktu athygli á Tæknidegi

Verkmenntaskóli Austurlands hefur veg og vanda að Tæknidegi fjölskyldunnar sem er haldinn árlega í Neskaupstað. Markmiðið er að vekja athygli á verk- og tækninámi og þeim fjölbreyttu starfsmöguleikum að námi loknu. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi tóku þátt í deginum og kynntu starfsemi sína.

EFLA á Austurlandi var með kynningarbás og sýndi það nýjasta á sviði drónaflugs í kortlagningu, landmælingum og skoðunum á mannvirkjum og svæðum. Nýjasti og öflugasti dróni EFLU, UX-11, var til sýnis ásamt minni dróna, Phantom 4 pro, og vöktu þeir heilmikla athygli gesta. Með drónunum hafa verið unnin fjölmörg spennandi verkefni eins og t.d. kortlagning landsvæða vegna virkjanamöguleika, skógræktar, hönnunar ofanflóðavarna og hönnunar á ferðamannastöðum. Þá hafa þeir verið notaðir við myndun á húsum og bæjarkjörnum vegna skipulagsmála, kynningarmála og mæling námusvæða vegna magntöku á efnishaugum.

Tæknidagurinn var afar vel sóttur og áætlaður gestafjöldi er í kringum 1500-1700 manns, sem er líklega fimmtungur af íbúum Austurlands.

EFLA þakkar gestum fyrir innlitið og spjallið um helgina.