Samningur um áframhaldandi stuðning EFLU við Arctic Circle til næstu tveggja ára var undirritaður nýlega. EFLA hefur verið virkur þátttakandi á Hringborði Norðurslóða frá árinu 2013 og sér spennandi möguleika í áframhaldandi samstarfi næstu ár.
Fróðleikur og hvatning
„Stefna EFLU er að leggja sjálfbærni til grundvallar allra verkefna sem fyrirtækið vinnur. Til að undirstrika þessa áherslu hefur EFLA meðal annars verið virkur þátttakandi á Arctic Circle frá upphafi með ýmsum hætti,“ segir Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri orku hjá EFLU.
„EFLA hefur skipulagt málstofur á ráðstefnunni ár hvert og lítur á þær sem gott tækifæri til að styðja við málefni norðurslóða og undirstrika mikilvægi sjálfbærni á öllum sviðum. Enn fremur lítur EFLA á það sem sitt hlutverk að miðla fróðleik, upplýsa og hvetja aðra til góðra verka. Við lítum á það sem spennandi verkefni að halda þessari fræðslu og hvatningu áfram, ásamt því að taka þátt í umræðum, læra af öðrum og styrkja tengslin til áframhaldandi samvinnu í átt að sjálfbærri framtíð,“ bætir Birta Kristín við.
Fjölbreytt umfjöllunarefni
EFLA hefur skipulagt og séð um málstofur á Arctic Circle Assembly, eða Hringborði Norðurslóða, undanfarin ár þar sem umfjöllunarefnin hafa verið fjölbreytt. Starfsfólk EFLU mun áfram annast málstofur á næstu ráðstefnu auk þess að taka þátt í öðrum hlutum Arctic Circle.
Á síðasta Hringborði Norðurslóða sem haldin var í október á liðnu ári stóð EFLA fyrir málstofu sem kallaðist „Shipping Toward the Green Future“ sem fjallar um orkuskipti í höfnum. Þar fjallaði starfsfólk EFLU, ásamt öðrum sérfræðingum, um orkuskipti á Íslandi í tengslum við hafnir með áherslu á hlutverk sjávarútvegsins þegar kemur að grænum orkulausnum.
Birta Kristín Helgadóttir og Ásdís Ólafsdóttir, forstjóri Arctic Circle; Hringborðs norðurslóða, undirrituðu samninginn. Við fögnum áframhaldandi samstarfi við Arctic Circle og erum spennt fyrir næstu ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu 17.-19. október.