EFLA eina fyrirtækið sem uppfyllti gæðakröfur

20.02.2023

Fréttir
3D model of electrical tower structure over a rugged terrain

EFLA fékk nýverið stóran ráðgjafasamning fyrir Svenska kraftnät í Svíþjóð sem fellst í því að hanna nýjar mastratýpur fyrir raforkuflutningskerfið þar í landi. Fleiri sænskar verkfræðistofur buðu í verkefnið en EFLA var eina fyrirtækið sem uppfyllti þær miklu gæðakröfur sem Svenska kraftnät setti fram.

EFLA eina fyrirtækið sem uppfyllti gæðakröfur

„Við erum mjög stolt af þessum árangri,“ segir Steinþór Gíslason, sviðsstjóri orkusviðs hjá EFLU og sá sem leiðir verkefnið. „Ástæðan fyrir því að við uppfyllum þessar gæðakröfur er sú að við höfum stóran og reynslumikinn starfshóp sem hefur afburða sérþekkingu í þessum mjög sérhæfða geira,“ bætir hann við. Að þessu verkefni kemur starfsfólk EFLU á Íslandi auk starfsfólks dótturfélaga EFLU í Svíþjóð, Noregi og Póllandi.

EFLA sá um forhönnun nýju mastranna frá árinu 2020 og lauk þeirri vinnu seint á síðasta ári. Nýi samningurinn, sem tók gildi í þessum mánuði og gildir út árið 2024, snýst um deilihönnun og gerð smíðateikninga fyrir þessar nýju mastragerðir. „Við munum á þeim tíma klára deilihönnun og skila teikningum og módelum þannig að hægt sé að hefja framleiðslu mastranna í lok 2024,“ útskýrir Steinþór.

Miklar fyrirætlanir um uppbyggingu

EFLA stofnaði fyrirtæki í Svíþjóð 2014 og hlaut sinn fyrsta rammasamning við Svenska kraftnät 2016. „Vinna okkar í Svíþjóð einskorðast við ráðgjöf, eftirlit og verkefnisstjórnun tengt uppbyggingu á raforkuflutningskerfi Svíþjóðar. Stærstur hluti þeirrar vinnu er hönnun á raforkuflutningsmannvirkjum eða með öðrum orðum hönnun háspennulína,“ segir Steinþór.

Miklar fyrirætlanir um frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku í Svíþjóð tengjast ekki síst metnaðarfullum markmiðum Svía um orkuskipti, þar sem endurnýjanleg orka kemur í stað jarðefnaeldsneytis. Vatnsorka, kjarnorka og lífmassi hafa verið helstu uppsprettur endurnýjanlegrar orku í Svíþjóð, en vindorkuframleiðsla er nú í örustum vexti. Orkukerfi Svíþjóðar er einnig vel tengt nærliggjandi löndum, sem gera Svía vel í sveit setta að nýta hluta grænu orkunnar sem verðmæta útflutningsvöru.

Hluti af þremur rammasamningum í Svíþjóð

EFLA er í dag með þrjá rammasamninga í gildi við Svenska kraftnät í Svíþjóð. „Þetta verkefni er hluti af þeim nýjasta, Ramavtal konstruktioner, sem við fengum á liðnu ári og snýst um hönnun á möstrum og undirstöðum. EFLA er eina fyrirtækið utan Svíþjóðar sem fékk þann samning og þar fengum við hæsta gæðaskor allra sem sóttu um,“ útskýrir Steinþór.

Hinir tveir rammasamningarnir eru annars vegar fyrir hönnun á nýjum háspennulínum, þar sem boðin eru út stór hönnunarverkefni, og hinsvegar fyrir innleigu á tæknilegri aðstoð þar sem eru m.a. boðin út verkefni fyrir verkefnisstjóra og fyrir byggingareftirlit. „Okkur hefur gengið mjög vel að ná í verkefni í öllum þremur rammasamningunum og umfang verkefna okkar í Svíþjóð hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum“, segir Steinþór.

Orkuflutningsmannvirki veigamesta útflutningsafurðin

Umsvif EFLU alþjóðlega hafa verið mikil á síðustu árum og nú er fyrirtækið með dótturfélög í Noregi, Svíþjóð, Skotlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Póllandi. Þessi umsvif urðu til þess að EFLA er handhafi Útflutningsverðlauna forseta Íslands en þau voru afhent fyrirtækinu í júní á síðasta ári. EFLA er fyrsta þekkingarfyrirtækið á sviði verkfræði til að hljóta þau. Veigamesta útflutningsafurð EFLU er einmitt ráðgjöf á sviði undirbúnings og hönnunar við uppbyggingu orkuflutningsmannvirkja, þ.e. háspennulína, jarðstrengja og spennustöðva.

A portrait of a man superimposed on a background of trees and power lines

Steinþór Gíslason, sviðsstjóri orku hjá EFLU.