EFLA eykur þjónustu á Vesturlandi

09.01.2024

Fréttir
Maður stendur fyrir framan skrifstofu.

EFLA heldur áfram að bæta þjónustu sína á landsbyggðinni með starfsstöð á Vesturlandi sem var formlega opnuð um áramót. Orri Jónsson, starfsmaður EFLU á Hvanneyri, verður svæðisstjóri á Vesturlandi. Fyrir er EFLA með starfstöðvar í Reykjanesbæ, á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum.

Aukið aðgengi að starfsfólki og störfum

Undanfarin fjögur ár hefur EFLA verið með skrifstofu á Hvanneyri og hafa umsvifin á svæðinu aukist jöfnum höndum frá fyrsta degi. „Með því að opna formlega starfsstöð á Vesturlandi er ætlun EFLU að festa sig varanlega í sessi á svæðinu. Bæði fyrir viðskiptavini og fyrir áhugasama framtíðarstarfsmenn sem hafa kannski ekki haft greiðan aðgang að tækifærum til þess að vinna við tæknimenntuð störf í dreifðari byggðum Vesturlands,” segir Orri og bætir við að ætlunin sé að byggja upp starfsemina á Vesturlandi enn meira og þetta sé hlutinn af þeirri vegferð.

Þessi viðbót auðveldar aðgengi viðskiptavina EFLU á Vesturlandi að starfsfólki fyrirtækisins. „EFLA er stærsta verkfræðistofa landsins og býr yfir ótrúlega fjölbreyttri þekkingu og færni. Með auknu aðgengi að starfsfólki EFLU í nærumhverfinu eykst jafnframt aðgengi að öllum teymum EFLU í heild sama hvar þau starfa,” útskýrir Orri.

Að sama skapi verða þjónustan og samskiptin persónulegri. „Í smærri samfélögum þar sem allir þekkja alla verður þjónustan ávallt frábrugðin því sem tíðkast t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Maður veit aldrei hvenær maður á von á því að lenda í samtali út í bæ um verkefnin sem í gangi eru. Það er bæði heillandi en á sama tíma krefjandi áskorun,” segir Orri.

Fyrst um sinn verður ekki um eiginlega skrifstofu að ræða heldur verður starfsfólk EFLU dreift um Vesturland eftir því sem hentar. Því verður hægt að finna starfsfólk EFLU á nokkrum svæðum á Vesturlandi. Auk starfsstöðvarinnar á Hvanneyri verður t.a.m. aðsetur í Grundarfirði og í Breið, nýsköpunarsetri á Akranesi.