Statnett, sem á og rekur flutningskerfi raforku í Noregi, hefur endurnýjað samninga sína við EFLU. Um er að ræða rammasamning fyrir ráðgjöf og hönnun en EFLA hlaut langhæstu matseinkunn þeirra sem buðu í verkefnið.
EFLA fær hæstu einkunn í stórum rammasamningi í Noregi
Þetta er fjórði rammasamningurinn í röð frá 2009 sem EFLA hlýtur hjá Statnett í tengslum við hönnun og ráðgjöf fyrir háspennulínur. Uppfylla þarf strangar hæfniskröfur til að fá slíkan samning og er EFLA með hæstu matseinkunn út frá faglegu skilamati þeirra sem buðu í samninginn. EFLA hefur fengið hæsta gæðaskor í öllum fjórum rammasamningunum við Statnett til þessa.
„Samningarnir við Statnett hafa verið kjölfesta orkusviðs EFLU í Noregi og skapað okkur þann rekstrargrundvöll sem við höfum svo byggt áfram á. Það er eftirtektarvert að EFLA hefur undanfarin ár ávallt fengið fullt hús stiga við mat á gæðum, hæfni og reynslu, og mun hærra skor en samkeppnisaðilarnir, en við keppum við stærstu verkfræðistofur Norðurlandanna. Þetta er afar stór viðurkenning fyrir EFLU og þann sterka hóp fagfólks sem að baki stendur“ segir Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri EFLU í Noregi. EFLA hefur síðustu árin komið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum tengdum uppbyggingu og styrkingu á flutningskerfi Noregs. „Einnig höfum við tekið þátt í afar spennandi nýsköpunar- og þróunarverkefnum eins og til dæmis hönnun á nýjum 420 kV álmöstrum og möstrum úr trefjaefnum sem og verkefnum tengdum háhitaleiðurum og ísingu á háspennulínum.“ segir Ragnar.
Uppbygging starfsstöðvar í Noregi
EFLA á sér langa sögu við verkfræðiráðgjöf á norska orkumarkaðnum og hefur starfrækt dótturfélagið EFLU AS í Noregi frá árinu 2008. Skrifstofan er staðsett í Osló þar sem starfa nú um 30 starfsmenn við margvísleg verkefni tengdum orkuráðgjöf, samgöngumálum og byggingum. Mikil uppbygging hefur verið á norsku starfsstöðinni og fjöldi starfsmanna vaxið jafnt og þétt undanfarin ár, ásamt því að skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins var nýlega tvöfaldað. Oftar en ekki er víðtækt samstarf við starfsfólk EFLU á Íslandi sem eykur enn frekar við þekkingu og reynslu í þjónustuframboði. „Þessar niðurstöður hvetja okkur enn frekar áfram og á starfsmannahópurinn allur mikið hrós skilið fyrir framgöngu sína.“ segir Ragnar að lokum.