Nýr alþjóðlegur vefur EFLU, EFLA-engineers.com, hlaut Íslensku vefverðlaunin síðastliðinn föstudag sem Fyrirtækjavefur ársins í flokki stórra fyrirtækja.
Áhugaverð og lifandi framsetning á efni
Vefurinn er samstarfsverkefni EFLU og Hugsmiðjunnar sem veittu verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn í Hafnarhúsinu þegar Samtök vefiðnaðarins héldu árlega uppskeruhátíð. Digido kom einnig að vinnunni sem ráðgjafar EFLU.
Í umsögn dómnefndar, sem var lesin upp þegar verðlaunin voru afhent, var vefnum sérstaklega hrósað fyrir áhugaverða og lifandi framsetningu á efni. Mikil vinna var lögð í að koma upplýsingum um þjónustu og verkefni EFLU til skila á vefnum á skilmerkilegan og skýran hátt.
Aðrir vefir sem voru tilnefndir í sama flokki voru vefur Íslandsbanka, Domino's, Gangverk.com og vefur Sóltúns.
Starfsfólki EFLU og Hugsmiðjunnar óskum við til hamingju með verðlaunin.