EFLA hlaut í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fyrir framúrskarandi starf í umhverfismálum á síðasta ári. Kuðungurinn er veittur árlega og er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfismála.
Verðlaunin voru veitt í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 og var það Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, sem tilkynnti um val dómnefndar og afhenti Kuðunginn.
Leiðandi í umhverfismálum
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á EFLU sem handhafa Kuðungsins kemur fram að EFLA hafi frá upphafi leitast við að vera leiðandi í umhverfismálum, hvort sem er í eigin rekstri eða í framboði á umhverfisvænum lausnum. Umhverfisráðgjöf skipi stóran sess í þjónustu fyrirtækisins en EFLA hefur aðstoðað á þriðja tug fyrirtækja við innleiðingu umhverfisstjórnunar. Þá hafi fyrirtækið rutt brautina fyrir ný úrræði í umhverfismálum umfram lagalegar kröfur, s.s. við gerð vistferilsgreininga, ráðgjöf við vistvænar vottanir bygginga auk ýmissa lausna sem snúi að umhverfisverkfræði. „Hjá EFLU er umhverfisvinkillinn settur á öll verkefni en slík umhverfistenging er gríðarlega mikilvæg hjá fyrirtæki sem sinnir margs konar ráðgjöf og verkefnastjórnun“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
Starfsfólkið á miklar þakkir skilið
„Við erum gríðarlega stolt af því að fá þessa viðurkenningu, því hún er afrakstur starfs sem hefur verið unnið að í langan tíma. Umhverfismálin eru orðin hluti af okkar daglegu störfum, en okkar mesti áhrifamáttur er einmitt fólginn í þeirri ráðgjöf sem við sinnum daglega til tugi fyrirtækja. Þar þurfum við að halda áfram að leggja áherslu á og vinna að lausnum sem efla viðskiptavini og samfélög. EFLA hefur verið afar lánsöm með gott og öflugt starfsfólk og hefur í gegnum árin haft innanborðs fólk sem eru brautryðjendur í umhverfismálum, en það er allt starfsfólkið sem hefur lagst á árarnar við að ná þessum árangri og á það skilið miklar þakkir fyrir. “ segir Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU.
Umhverfisstjórnun í eigin starfsemi
Í starfsemi EFLU er mikil áhersla lögð á umhverfisstjórnun, hvort heldur er í ráðgjafarþjónustu, almennum rekstri eigin skrifstofa og rannsóknarstofu, í innkaupum og við val á birgjum. Þegar EFLA flutti í nýtt húsnæði síðla árs 2018 voru gerðar kröfur um BREEAM umhverfisvottun og rík áhersla lögð á vistvæn byggingarefni, góða hljóðvist, flokkunarstöðvar og góða aðstöðu fyrir starfsfólk sem stundar virka ferðamáta. Markvisst er unnið að því að minnka kolefnisspor fyrirtækisins og hefur framlag EFLU, Matarspor, sem sýnir mismunandi kolefnisspor máltíða vakið mikla athygli.
Ráðgjöf taki mið af umhverfisvænum lausnum
Hluti af þjónustu EFLU er að reikna út kolefnisspor fyrir viðskiptavini vegna ólíkra verkefna, allt frá umbúðum til bygginga og skipulags. Sömuleiðis snýr hluti af ráðgjöf til viðskiptavina að því hvernig hægt er að draga úr myndun úrgangs eða nýta hann til góðra verka. Dæmi um það er nýstárleg lausn á Mývatni sem gengur út á að nýta seyru frá salernum eða svokallað svartvatn til landgræðslu.
Kuðungurinn glæsilegur skúlptúr
Verðlaunagripinn, Kuðunginn gerði að þessu sinni listhópurinn Fischer sem er skipaður systkinunum Lilju, Ingibjörgu og Jóni Þóri Birgisbörnum. Gripurinn er ekki aðeins skrautmunur því með því að setja snjallsíma inn í skúlptúrinn grípur kuðungurinn hljóðið sem spilast úr símanum og varpar því út í rýmið eins og hátalari. Þannig er leikið með samspil náttúru og tækni í hönnun gripsins.
Í dómnefnd sátu Hrönn Hrafnsdóttir, formaður, Ágúst Elvar Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Heimir Janusarson f.h. Alþýðusambands Íslands og Hrefna Sigurjónsdóttir, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.
EFLA þakkar fyrir þá viðurkenningu á starfsemi fyrirækisins sem felst í veitingu Kuðungsins, umhverfisviðurkenningu Umhverfisráðuneytisins.