EFLA inn á pólska markaðinn

12.02.2024

Samsett mynd með tveimur mönnum.

Dótturfélag EFLU í Póllandi, ISPOL – PROJEKT, hefur nú skipt um nafn og heitir í dag EFLA. Þetta er fjórða dótturfyrirtæki EFLU utan Íslands sem ber nafn fyrirtækisins en fyrir eru fyrirtæki í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi sem öll heita EFLA. Auk þess er EFLA með dótturfélag í Frakklandi sem ber nafnið HECLA.

Bætt staða á alþjóðavettvangi

„Það er ánægjulegur áfangi að ISPOL hefur tekið upp EFLU-nafnið. Þetta endurspeglar áherslur okkar um að styrkja stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Frá árinu 2019 hefur ISPOL verið hluti af EFLU-samstæðunni sem dótturfélag og þessi nafnabreyting styrkir samstarfið innan samstæðunnar enn frekar,” segir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

Piotr Gburczyk, framkvæmdastjóri EFLU í Póllandi, áður ISPOL, segir nafnabreytinguna vera tímamótaskref. „Hún endurspeglar núverandi stöðu og framtíðarsýn EFLU á pólskum og alþjóðlegum markaði. Með nafnabreytingunni verður EFLA sýnileg í Póllandi. Nú verður mögulegt að þróa þjónustuna sem er beint að innanlandsmarkaði en einnig að útvíkka hana til annarra orku- og byggingarverkefna í framtíðinni,“ .

Hópur fólks fyrir framan stóra byggingu.

Starfsfólk EFLU í Póllandi ásamt öðru starfsfólk EFLU samstæðunnar sem starfar í orkuflutningum.

Leiðandi á þessu sviði

EFLA í Póllandi er staðsett í Lodz og er rótgróið ráðgjafarfyrirtæki á sviði verkfræði. Þar starfa næstum 40 manns sem vinna í nánu samstarfi við starfsfólk EFLU í öðrum löndum. Starfsstöðin sérhæfir sig í alhliða undirbúningi og hönnun raforkuflutningslína og tengivirkja. Þar með eru taldar tengistöðvar, loftlínur, jarðstrengir og ljósleiðarar ásamt háspennubúnaði. Meðal helstu viðskiptavina fyrirtækisins eru PSE, opinbert fyrirtæki sem á og rekur pólska raforkuflutningskerfið og rafdreifiveitur í Póllandi.

„Starfsfólk EFLU hefur hlotið viðurkenningu fyrir sérþekkingu sína á sviði raforkuflutninga, einkum á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu. EFLA í Póllandi er mikilvægur hluti af þjónustuframboði okkar í þessum mikilvæga geira. Áherslan á raforkuflutninga er í samræmi við það markmið EFLU að vera leiðandi í verkefnum á þessu sviði,” segir Sæmundur.

Hægt er að kynna sér EFLU í Póllandi á vefsíðu fyrirtækisins, efla.pl.