EFLA kom að gerð nýrra nafnskírteina

08.03.2024

Fréttir
Nafnskírteini.

Sýnishorn frá Þjóðskrá.

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands. Teymi hugbúnaðarlausna hjá EFLU þróaði viðbætur við Skilríkjaskrá Þjóðskrár Íslands sem auk hinna nýju nafnskírteina heldur utan um útgáfu vegabréfa og dvalarleyfiskorta.

Í tveimur útgáfum

Nýja nafnskírteinið er í tveimur útgáfum, annars vegar eingöngu fyrir notkun innanlands og hins vegar ferðaskilríki sem getur komið í stað vegabréfs þegar ferðast er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar. Þau hafa verið lengi í undirbúningi, allt frá því að fyrsta verkáætlun var samþykkt árið 2007 og fram til ársins 2023 þegar ný lög um nafnskírteini tóku gildi.

Aukið öryggi og nýtt útlit

Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin eru í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Útlit nafnskírteinanna byggir á nýjum staðli frá Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og er Ísland fyrsta landið í heiminum sem gefur út skilríki samkvæmt þessum nýja staðli.  Helsta breytingin er að andlitsmynd er mun stærri, sem auðveldar allan samanburð við handhafa kortsins.

Nafnskírteini sem ferðaskilríki

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki. Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

EFLA óskar Þjóðskrá og landsmönnum öllum til hamingju með nýja skilríkið.