EFLA með erindi á Umhverfismatsdeginum

18.06.2018

Fréttir
A scenic view of waterfall and a flower speckled landscape

Umhverfismatsdagurinn, árlegt málþing Skipulagsstofnunar um umhverfismat, var haldinn þann 7. júní. Meðal fyrirlesara var Ólafur Árnason, fagstjóri skipulagsmála hjá EFLU, og flutti hann erindi um landslag og ásýnd.

EFLA með erindi á Umhverfismatsdeginum

Aðalumræðuefni málþingsins í ár sneri að þeim grunnupplýsingum sem lagðar eru til grundvallar við umhverfismat og þeim aðferðum sem beitt er við mat á umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðir.

Flutt voru sex erindi sem öll tendust viðfangsefni málþingsins á einn eða annan hátt. Fyrirlesarar voru Ólafur Árnason frá EFLU, Einar Jónsson frá Skipulagsstofnun, Ása L. Aradóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Kristinn Haukur Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun, Hjalti Jóhannesson frá Háskólanum Akureyri og Henry Alexander Henrysson frá Háskóla Íslands. Einnig flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp.

Mikilvægt að auðvelda umræður um vægi umhverfisáhrifa

Erindi Ólafs Árnasonar kallaðist Landslag og ásýnd: Aðferðir, grunngögn og gildismat. Fyrilesturinn fjallaði um hve landslag og ásýnd þess væri mikilvægur umhverfisþáttur fyrir Íslendinga og auðlynd sem ekki hefur verið kortlögð. Benti Ólafur á að hér á landi er mat á áhrifum á landslag hvorki byggt á samræmdum grunngögnum, né unnið eftir samræmdum leiðbeiningum og því að mörgu leiti ekki samanburðarhæft á milli verkefna.

Ólafur fjallaði einnig um áhrif gildismats á niðurstöður eða vægiseinkunn í mati á umhverfisáhrifum og hvaða þættir hafa þar áhrif. Mikilvægt væri að sýna fram á rekjanleika slíkra niðurstaðna og útskýra ávallt hvað það þýðir ef vægi umhverfisáhrifa séu metin óveruleg, nokkur, talsverð og veruleg. Þannig megi auðvelda umræðu um niðurstöður og hvað það er sem orsakar þann mun á vægi áhrifa sem ólíkt gildismat mismunandi hagsmunaaðila kallar fram.

Öll erindin og glærur frá málþinginu má finna á vef Skipulagsstofnunar.