EFLA með fjögur erindi á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar

05.11.2018

Fréttir
A complex intersection with multiple roadways, pedestrian paths and surrounding buildings

Samgöngumálefni eru EFLU hugleikin og unnið er að fjölbreyttum verkefnum á sviðinu.

Farið var yfir afrakstur rannsókna- og þróunarstarfs í vegamálum á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar 2. nóvember síðastliðinn. EFLA var með kynningarbás á svæðinu og héldu starfsmenn okkar erindi á ráðstefnunni.

Hjá EFLU verkfræðistofu er unnið að margvíslegum rannsóknar- og þróunarverkefnum á sviði samgöngumála. Baldvin Einarsson, Daði Baldur Ottósson, Sólrún Svava Skúladóttir og Jónas Hlynur Hallgrímsson starfsmenn EFLU, sögðu frá verkefnum sem hafa fengið styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Tæring málma fyrir mannvirkjagerð

Baldvin Einarsson , byggingarverkfræðingur, sagði frá heildstæðri rannsókn sem hófst árið 1999 þar sem tæring málma var skoðuð á 15 stöðum umhverfis landið. Baldvin sagði frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar og sagði að auki frá nýju rannsóknarverkefni þar sem skoðaðir eru möguleikar hægtryðgandi stáls við brúargerð á Íslandi. Engin reynsla er komin á notkun þess í burðarvirki hérlendis en talið er að töluverður ávinningur geti verið að nota slíkt stál þar sem framleiðslu- og byggingarkostnaður er lægri. Að auki er vistfræðilegt fótspor mannvirkja úr hægtryðgandi stáli minna en á hefðbundnu stáli. Sett hafa verið upp 120 sýni víðsvegar á landinu og gert er ráð fyrir að rannsóknin taki 10 ár.

Ágrip

Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Samgönguverkfræðingurinn Daði Baldur Ottósson sagði frá rannsóknarverkefni þar sem leitað var svara við hvaða þættir skipta mestu máli varðandi gæði almenningssamgangna og hvað er líklegast til ávinnings til að fá fleiri til að nota þær. Viðhorfskönnun á ferðavenjum íbúa höfuðborgarsvæðisins hvað varðar almenningssamgöngur var framkvæmd og greint frá helstu niðurstöðum. Meðal þess sem kom fram í könnuninni var að 20% íbúa höfuðborgarsvæðisins nota Strætó einu sinni eða oftar í mánuði. Spurt var út í hvað skiptir íbúa mestu máli varðandi úrbætur á almenningssamgöngum og voru helst nefndir þættir eins og aukin tíðni ferða, styttri ferðatími, ódýrara fargjald og bættur greiðleiki við skiptingar. Sjá viðtal við Daða á Vísi.

Ágrip

Þróunarmöguleikar almenningssamganga á landsvísu

Umfjöllunarefni Sólrúnar Svövu Skúladóttur umhverfisverkfræðings var rannsóknarverkefni um almenningssamgöngur á landsvísu, bæði í lofti, legi og á láði og mat á gæðum þeirra og þróunarmöguleikum. Verkefnið gekk út á að fara yfir stöðu almenningssamgangna og fá upplýsingar frá almenningi á landsbyggðinni varðandi viðhorf þeirra og þarfir gagnvart málefninu. Viðhorfskönnun var því gerð meðal íbúa á Norðurlandi vestra og eystra til að kanna hvaða þættir skipta mestu máli við gæði almenningssamganga.

Ágrip

Flutningar á ferskum fiski

Hagfræðingurinn Jónas Hlynur Hallgrímsson sagði frá skýrslu þar sem metin er þjóðhagsleg hagkvæmni flutninga á ferskum fiski. Öflugt vegakerfi frá vinnslu til útflutningshafnar skiptir miklu máli við að koma afurðinni til neytanda á sem öruggastan og fljótlegastan máta. Afhendingartíminn hefur þannig mikil áhrif á afurðaverð og metinn var þjóðhagslegur ábati af bættu vegakerfi til næstu 30 ára. Borinn er saman ábati flutninga miðað við núverandi ástand vegakerfisins skv. gögnum frá Vegagerðinni um lokanir á vegum og þungatakmarkanir á tímabilinu 2016-2017 og miðað við takmarkanalaust vegakerfi, þ.e. að hægt sé að keyra á hámarkshraða á vegum landsins allan ársins hring án nokkurra takmarkana.

Ágrip