EFLA og Íslenski Sjávarklasinn styðja við nýsköpun

19.02.2024

Fréttir
Maður og kona handsala samning.

Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska Sjávarklasans, og Reynir Sævarsson vöruþróun og nýsköpun hjá Eflu, undirrita samstarfssamninginn.

Íslenski sjávarklasinn og EFLA hafa komið sér saman um samstarf sem miðar að því að styðja við aukna verðmætasköpun í bláa hagkerfinu.

Langtímastuðningur við öfluga frumkvöðla

Stefnt er að því að styðja við frumkvöðla sem vinna verðmæti úr því sem áður var hent, eða leita lausna á áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir í gegnum nýtt verkefni sem Sjávarklasinn leiðir og nefnist Verbúðin. Því er ætlað að efla tengsl og samvinnu rótgróinna fyrirtækja í bláa hagkerfinu við frumkvöðlafyrirtæki og rannsóknar- og þróunarteymi úr háskólasamfélaginu.

Verkefnið er hugsað sem langtímastuðningur við öfluga frumkvöðla sem eru að vinna að lausnum á áskorunum sem við stöndum frammi fyrir og auka nýtingu. Með þessu er ætlunin búa til vettvang þar sem unnið er með markvissum hætti að því að sannreyna og prófa lausnir frumkvöðla í raunheimum og stuðla að því að lausnir sem verið er að þróa í nýsköpunarumhverfinu þjóni atvinnulífinu. Að auki verða til mikilvægar tengingar og samtal sem ætlað er að ýta undir aukna verðmætasköpun í víðum skilningi.

Sérhæfðar lausnir fyrir sjávarútveg

EFLA hefur þjónustað íslenskan sjávarútveg um áratugaskeið. Sjávarútvegsfyrirtækjum eru veittar sérhæfðar lausnir sem eru í takt við tækniþróun hvers tíma. Þar hafa verkefni tengd orkuskiptum sjávarútvegsins farið vaxandi t.d. með rafvæðingu fóðurpramma og landtengingu skipa. EFLA hefur einnig sinnt verkefnum í tengslum við sjálfvirknikerfi og myndgreiningar með sérhæfðum lausnum við framleiðslulínur.

Nýsköpun í bláa hagkerfinu

Íslenski sjávarklasinn hefur verið starfræktur frá árinu 2011 og á víðtækt samstarf við fjölda nýsköpunarfyrirtækja í bláa hagkerfinu; útvegar þeim aðstöðu, styrkir tengslanet þeirra og fjárfestir í sprotunum. Hús sjávarklasans er samfélag yfir 70 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi - fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru. Markmið Sjávarklasans er að efla alla starfsemi tengda haf- og vatnasviði landsins og nýta innlenda tækniþekkingu til að efla verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni.