EFLA og Studio Granda vinna samkeppni

10.10.2014

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Tillaga EFLU og arkitektanna á Studio Granda varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni Vina Þórsmerkur og Vegagerðarinnar um nýja göngubrú á Markarfljót við Húsadal.

EFLA og Studio Granda vinna samkeppni

Samkvæmt tillögunni verður form brúarinnar einfalt, svífandi og látlaust og er það meginforsenda að mannvirkið verði eins efnislítið og kostur er og valdi sem minnstri sjónrænni truflun í umhverfinu. Það er sniðið að landslaginu báðum megin árinnar og fellur að landi í um 9 m hæð yfir Markarfljótsaurum. Brúin mun tengjast nýju bílastæði norðan Markarfljóts og stígum í Húsadal að sunnanverðu.

Brúin verður um 158 m löng hengibrú. Hæðarlega hennar er samfelldur lágbogi og er lágpunktur bogans um 3 m neðar en brúarendar. Brúargólf er úr timbri, mögulega innlendu, sem borið er af stálköplum og breidd þess verður 2,5 m milli bríka og handriða í köntum. Bil verður á milli borða í gólfi og eykur það á nánd ferðalanga við vatnsfallið án þess að ógna öryggi þeirra. Burðarköplum er haldið í stöplum við brúarendana. Stöplarnir eru úr járnbentri steinsteypu og eru þeir akkeraðir í berg og verða að mestu ósýnilegir í frágengnu mannvirki.

Neðan brúargólfsins verða aðrir stálkaplar, og liggja þeir í parabólu bæði lárétt og lóðrétt. Þeim er ætlað að stífa brúna gagnvart sveiflum og færslu. Hönnunarforsendur gera ráð fyrir að unnt verði að aka 4 tonna ökutæki yfir brúna.

Burðarvirki brúarinnar er svo létt að ekki verður um mjög stíft mannvirki að ræða. Brúin mun við ákveðin skilyrði hreyfast nokkuð, en innan öruggra marka. Við fullnaðarhönnun, en þess er vænst að hún hefjist á næstu vikum, verður lögð áhersla á að útfæra burðarvirkið með þeim hætti sem hámarkar öryggi og þægindi notenda. Við hönnun og efnisval er leitast við að tryggja að rekstrar- og viðhaldskostnaður brúarinnar verði í lágmarki.

Umfjöllun um samkeppnina á vef Vegagerðarinnar:

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/frettir/nr/7629