EFLA opnar í Svíþjóð og rammasamningur í höfn

30.06.2014

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

EFLA verkfræðistofa hefur stofnað dótturfélagið EFLU AB í Stokkhólmi. Félagið mun veita sérhæfða þjónustu við háspennulínur og önnur verkefni sem lúta að flutningi og dreifingu raforku.

EFLA opnar í Svíþjóð og rammasamningur í höfn

Ingemar Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri EFLU AB en Ingimar býr yfir áratuga reynslu í verkefnum við raforkukerfi á sænska markaðinum. Á undanförnum árum hefur EFLA unnið frá Íslandi að verkefnum við orkuflutningskerfið í Svíþjóð en með stofnun EFLU AB er stefnt að því að skapa EFLU varanlega fótfestu á sænska markaðnum.

EFLA á sér langa sögu í verkfræðiráðgjöf á norska orkumarkaðnum í gegnum dótturfélagið EFLU AS í Osló sem í dag er helsti ráðgjafi Statnett í Noregi á þessu sviði. Á skrifstofu EFLU AS í Noregi starfa 11 starfsmenn auk undirverktaka en EFLA á Íslandi kemur mikið að verkefnunum í samstarfi við EFLU AS.

EFLA hefur nú þegar undirritað fyrsta rammasamninginn í Stokkhólmi en hann er við Svenska Kraftnät og er til tveggja ára og framlengjanlegur um tvö ár. Samningurinn tryggir EFLU þátttöku í útboðum Svenska Kraftnät á sviði háspennulína, en áform eru um uppbyggingu sem nemur 400-500 km á ári af nýjum 400 kV loftlínum fram yfir árið 2025. Framkvæmdirnar eru liður í verulegri styrkingu flutningskerfis raforku í Svíþjóð sem hefur m.a. það hlutverk að miðla orku milli norður Skandinavíu og meginlands Evrópu. Svenska Kraftnät og Statnett í Noregi eiga og reka flutningskerfi raforku og gegna því sama hlutverki og Landsnet á Íslandi.