EFLA hefur samið við Carbfix um forhönnun á Coda Terminal, fyrirhugaðri móttöku- og förgunarstöð fyrir koldíoxíð (CO2) í Straumsvík.
EFLA semur við Carbfix um forhönnun Coda Terminal
Forhönnunin felur meðal annars í sér þarfagreiningu og frumhönnun á búnaði og byggingum, valkostagreiningar og mat skipulagsmálum, kostnaði og tímaáætlunum. Áætlað er að þessum þætti ljúki í sumar og þá taki við fullnaðarhönnun. Samhliða þessu hefst einnig vinna við umhverfismat verkefnisins.
Coda Terminal er ætlað að taka á móti 3 milljónum tonna af koldíoxíði á ári og farga því með Carbfix tækninni. Hún felst í að blanda það vatni og dæla því niður í basaltjarðlög, þar sem það umbreytist varanlega í stein með náttúrulegum ferlum.
Koldíoxíðið verður annars vegar fangað frá iðnaði í Norður-Evrópu og flutt hingað til lands með sérhönnuðum skipum, og hins vegar frá álveri Rio Tinto í Straumsvík. Stefnt er að því að niðurdæling í tilraunaskyni hefjist 2023 og að stöðin nái fullum afköstum 2031, en þau samsvara meira en helmingi af árlegri heildarlosun Íslands á CO2.
Við getum sannað fyrir umheiminum að þetta sé hægt á mjög stórum skala og þegar fram í sækir gæti þetta orðið okkar stærsta framlag til loftslagsmálanna
Reynir Sævarsson
Samtals 80.000 tonnum af koldíoxíði verið umbreytt í stein
Þróun Carbfix tækninnar hófst árið 2007. Hún hefur allt frá árinu 2014 verið notuð til að umbreyta samtals um 80 þúsund tonnum af koldíoxíði frá Hellisheiðarvirkjun í stein. Á liðnu ári hófst einnig á sama stað förgun á koldíoxíði frá Orca stöð Climeworks, stærsta lofthreinsiveri heims sem fangar CO2 úr andrúmslofti.
„Loftslagsmarkmiðum heimsins verður ekki náð án þess að stigin verði stór skref í föngun og förgun kolefnis. Með átta ára samfelldum rekstri á Carbfix tækninni á iðnaðarskala höfum við sýnt fram á að hún er hagkvæm og örugg leið sem virkar, en með Coda Terminal lætur nærri að við tvöhundruðföldum afkastagetuna. Samningurinn við Eflu er mikilvægt og ánægjulegt skref að því marki,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
„EFLA hefur um árabil lagt höfuðáherslu á lofslagsmál í öllum sínum verkefnum. Við hjá EFLU erum því afar stolt af að hafa verið metin hæfust til að forhanna Coda Terminal og fá þannig að taka þátt í þessu gríðarlega mikilvæga verkefni. Ljóst er að hnattræn hlýnun verður ekki stöðvuð nema með því að beita öllum lausnum sem til eru. Sviðsmyndir IPCC reikna flestar með því að nokkur hluti af samdrætti í losun verði að koma til með föngun og förgun á CO2. Ísland gegnir hér mikilvægu hlutverki því hér eru kjöraðstæður fyrir þessa tegund förgunar. Við getum sannað fyrir umheiminum að þetta sé hægt á mjög stórum skala og þegar fram í sækir gæti þetta orðið okkar stærsta framlag til loftslagsmálanna,“ segir Reynir Sævarsson, hönnunarstjóri Coda Terminal og stjórnarformaður EFLU.
Áfram verður lögð áhersla á gagnsæi og náið samráð við hagsmunaaðila við þróun verkefnisins.
Nánari upplýsingar um Coda Terminal má finna á vef verkefnisins .