EFLA styrkir Kvennaathvarfið

27.04.2023

Fréttir
A man and a woman shaking hands with the woman holding a bouquet of flowers and another person smiling in the background

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, tekur við styrknum og blómvendi frá Sæmundi Sæmundssyni, framkvæmdastjóra EFLU.

Kvennaathvarfinu var í dag veittur styrkur úr Samfélagssjóði EFLU. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, afhenti Lindu Dröfn Gunnarsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins styrkinn, fjórar milljónir króna, á aðalfundi athvarfsins.

EFLA styrkir Kvennaathvarfið

Kvennaathvarfið hyggst nýta styrkinn til að byggja upp aðstöðu fyrir börn í nýja athvarfinu. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við nýbyggingu Kvennaathvarfsins um næstu áramót. „Styrkurinn verður nýttur sérstaklega til að hanna barnaherbergi fyrir yngri börn í nýja athvarfinu. Herbergið verður innréttað þannig að það skapi öryggi og haldi fallega utanum börnin,“ segir Linda Dröfn um styrkinn frá EFLU. „Leikur og gleði verða þar allsráðandi og því lagt upp með að herbergið verði innréttað þannig að sköpunar- og leikgleði barnanna fái að njóta sín,“ bætir hún við.

A portrait of a man in blue suit

Framlag Kvennaathvarfsins ómetanlegt

Sæmundur Sæmundsson segir ástæðu þess að EFLA ákvað að styrkja Kvennaathvarfið vera að: „Framlag Kvennaathvarfsins til samfélagsins er ómetanlegt. Kvennathvarfið sinnir gríðarlega mikilvægu verkefni í íslensku samfélagi og heldur utan um og styður viðkvæman hóp sem oft á ekki í nein hús að venda. Um leið hefur Kvennaathvarfið haldið á lofti umræðu um heimilsofbeldi og beint kastljósinu að því samfélagsmeini sem heimilisofbeldi er,“ segir Sæmundur.

Styrkir sem þessir hafa mikla þýðingu fyrir Kvennaathvarfið. „Þrátt fyrir að Kvennaathvarfið sé með rekstrarsamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti auk Reykjavíkurborgar, þá eru það styrkir frá almenningi og fyrirtækjum sem gera okkur kleift að bjóða uppá þá vönduðu ráðgjöf og eftirfylgni sem nauðsynleg er fyrir konur og börn þeirra,“ segir Linda Dröfn.

Þróun á barnastarfi innan Kvennaathvarfsins er gríðarlega mikilvæg. „Rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að börn í athvörfum fái vandaðan og samfelldan stuðning á meðan á dvöl í athvarfinu stendur. Mikilvægt er að þau fái sitt rými þar sem þau finna til sértstaks öryggis, þar sem þau geta bæði leikið sér og átt samveru með ráðgjafa athvarfsins,“ segir Linda Dröfn.

A group of nine people posing for a picture with one person holding a bouquet of flower

Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU

Með Samfélagssjóði EFLU eru veittir styrkir til uppbyggjandi og jákvæðra verkefna, sem nýtast samfélaginu. „EFLA hefur um árabil stutt við fjölda samfélagslegra verkefna í gegnum samfélagssjóð sinn. Þessi stuðningur er hluti af stefnu EFLU um að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki. Samfélagið sem fyrirtækið starfar í skiptir máli og við viljum láta gott af okkur leiða,“ segir Sæmundur og bætir við. „Í ár fagnar EFLA 50 ára afmæli og af því tilefni vildum við styðja sérstaklega eitt verkefni á myndarlegan hátt. Kvennaathvarfið á svo sannarlega þann stuðning skilinn.“

Styrkir sem þessir skipta starfsfólk EFLU einnig miklu máli. „Kvennaathvarfið er griðastaður töluvert fleiri en maður gerir sér grein fyrir og úr hinum ýmsu hópum samfélagsins. Mér finnst EFLA vera að sýna mikinn og nauðsynlegan náungakærleik með að veita þessu verkefni byr í seglin sín,“ segir Ágústa Rún Valdimarsdóttir, formaður Öflungs, starfsmannsfélags EFLU. „Það gerir mann stoltan að starfa hjá fyrirtæki sem lætur samfélagsábyrgð skipta sig máli og er ekki bara að veita stuðning í hagnaðardrifin verkefni heldur líka þau sem hlúa að mannlega þættinum.“

Auk þess að styrkja Kvennaathvarfið mun EFLA vera með árlega úthlutun úr sjóðnum í haust og hægt er að senda inn umsókn í gegnum vefsíðu fyrirtækisins. Þá hefur EFLA einnig sett á laggirnar Emblu samverudag EFLU þar sem starfsfólk fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra hittast í frítíma sínum til þess að framkvæma eitthvað sem nýtist öllu samfélaginu.