EFLA tekur þátt í þjóðargjöf til norsku þjóðarinnar

22.03.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, til Noregs nú í mars tekur EFLA þátt í að gefa norsku þjóðinni gjöf sem helguð er áttræðisafmæli norsku konungshjónanna.

EFLA tekur þátt í þjóðargjöf til norsku þjóðarinnar

Gjöfin eru 500 eintök af hinni nýju og glæsilegu heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta, á norsku. Þetta er í fyrsta sinn sem þessar sögur eru allar þýddar á norsku og hefur útgáfan hlotið einróma lof. Fremstu fræðimenn og þýðendur Norðmanna önnuðust verkefnið undir forystu ritstjóranna Jon Gunnar Jørgensen, prófessors við Háskólann í Osló, og Jan Ragnar Hagland, prófessors við Háskólann í Bergen.

Þjóðargjöfinni verður dreift til bókasafna í Noregi þannig að almenningi hvarvetna í landinu sé tryggður greiður aðgangur að þessum sagnasjóði, sem gjarnan er talinn merkasta framlag Norðurlandanna til heimsbókmenntanna.

Það er mikill heiður fyrir EFLU að fá að taka þátt í þessari gjöf. EFLA hefur undanfarin ár komið sér vel fyrir í Noregi með dótturfélagið EFLA AS í Osló þar sem starfa 24 starfsmenn. EFLA AS er með leiðandi stöðu á Norðurlöndum í ráðgjöf er varðar orkuflutningsmannvirki, auk þess að vera að færa út kvíarnar á öðrum sviðum, svo sem í samgöngutengdum verkefnum. Stærstu viðskiptavinir EFLU í Noregi eru opinber fyrirtæki, Statnett og Statens Vegvesen.