EFLA tekur þátt í uppbyggingu Fjallabaða

15.11.2022

Fréttir
Five individuals dressed in warm clothing, standing outdoors with a barren hill in the background

Fulltrúar EFLU við skóflustunguna.

Starfsfólk EFLU tekur þátt í uppbyggingu á Fjallaböðunum í Þjórsárdal, en fyrsta skóflustungan fyrir böðin var tekin í síðustu viku. Áætlað er að þau verði tekin í gagnið árið 2025.

EFLA tekur þátt í uppbyggingu Fjallabaða

Um er að ræða böð, baðstað og 40 herbergja hótel, en stór hluti byggingarinnar verður byggður inn í fjallið Rauðukamba. Að auki mun rísa Gestastofa Þjórsárdals, alls 2000 fermetra þjónustubygging, sem mun hýsa upplýsingamiðstöð ferðamanna, sýningu og veitingaþjónustu ásamt gistiplássum.

Sérfræðingar EFLU annast jarðtæknimál, burðarvirki, hljóðvist, brunatæknileg hönnun, stýrikerfi, ráðgjöf um byggingareðlisfræði, hönnun lónskerfis dælustöðvar og ráðgjöf vegna fráveitumála. Einnig mun starfsfólk sjá um BREEAM vottun byggingarinnar, vistferilsgreiningu og sjálfbærniráðgjöf, veghönnun, skipulagsmál, steinsteypuráðgjöf og hönnunarstjórn EFLU.

Kolefnisjafnaður rekstur

Allar byggingar verða BREEAM vottaðar og stefnt er að lægra kolefnisspori en venja er til með vistvænum byggingarlausnum og endurvinnslu á byggingarefni. Frá fyrsta degi stefna Fjallaböðin einnig að kolefnisjöfnuðum rekstri og hefur félagið þegar gróðursett 120 þúsund tré í Þjórsárdal til að tryggja bindingu kolefnis strax við opnun.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Fjallabaðanna, tóku saman skóflustunguna.

Frá EFLU voru viðstödd athöfnina Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri, Silja Traustadóttir, arkitekt, Anna Kristín Hjartardóttir, arkitekt, Heiðrún Ösp Hauksdóttir, byggingarverkfræðingur, og Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisverkfræðingur. Starfsfólk EFLU hefur mikla reynslu þegar kemur að uppbyggingu baðstaða á Íslandi. Áður hefur starfsfólk fyrirtækisins komið að VÖK baths á Austurlandi, Skógarböðunum á Norðurlandi og uppbyggingu Blue Lagoon á Suðurlandi.

Four individuals dressed in warm clothing, standing outdoors with shovels in their hands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Fjallabaðanna, taka saman skóflustunguna.