EFLA vinnur reiknivél fyrir loftslagsáhrif áburðartegunda

18.06.2021

Fréttir
A close up photo of delicate grass backlit by sunlight, creating blurry effect in the background

Umhverfisteymi EFLU lauk nýverið við smíði reiknivélar fyrir kolefnisspor áburðartegunda í samstarfi við Landgræðsluna. Markmið verkefnisins var að öðlast skilning á loftslagsáhrifum áburðarnotkunar og auðvelda stjórnvöldum og stofnunum að móta stefnu í notkun áburðar.

Verkfæri til ákvarðanatöku

Reiknivélin er hugsuð sem verkfæri fyrir stjórnvöld og stofnanir við að taka ákvarðanir og jafnvel breyta áherslum í áburðarnotkun eftir því sem tilefni gefa til. Niðurstöður útreikninganna benda meðal annars til þess að kolefnisspor tilbúins áburðar til uppgræðslu sé oft stærra en þegar lífrænn áburður er notaður. Þar vegur þyngst kolefnisspor framleiðslunnar á tilbúna áburðinum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra tjáði sig um verkefnið á vef Stjórnarráðsins: „Þessi reiknivél gerir okkur kleift að bera saman kostnað á mismunandi tegundum áburðar og hve stórt kolefnissporið er frá þeim. Aukin notkun lífræns áburðar er í takti við eflingu hringrásarhagkerfisins og getur samkvæmt reiknivélinni í mörgum tilvikum skilað loftslagsávinningi. Ég vonast til að þetta nýtist til að taka ákvarðanir varðandi áburðarnotkun í landgræðslu og landbúnaði sem hafi hringrásarhagkerfið og áhrif á loftslagið í fyrirrúmi“.

Reiknivélina, ásamt skýrslu um verkefnið má kynna sér á vef Landgræðslunnar:

https://land.is/reiknivel-lifraenn-aburdur/