Eldsneytisspá Orkustofnunar er komin út

28.09.2021

Fréttir
A row of white industrial storage tanks by the water

Ísland stefnir að því að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050.

Ný eldsneytisspá orkuspárnefndar fyrir 2021-2060 hefur verið gefin út. Starfsfólk EFLU er í starfshóp nefndarinnar og kemur að útgáfu skýrslunnar.

Eldsneytisspá Orkustofnunar er komin út

Orkuskiptin eru þungamiðjan í nýrri eldsneytisspá landsins til næstu ára, enda hafa stjórnvöld sett sér markmið um að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis. Spáin er unnin út frá þeim forsendum sem liggja fyrir um þróun í efnahagsmálum, orkuskiptum og olíunotkun.

Í samþykktri orkustefnu Íslands er stefnt að landið verði óháð jarðefnaeldsneyti á lofti, láði og legi fyrir 2050 og að skuldbindingar um samdrátt í losun mæti markmiðum Parísarsáttmálans fyrir 2030.

Þrjár sviðsmyndir

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að auka þurfi græna raforkuframleiðslu á Íslandi og að grunnspá um olíunotkun fyrir 2060 verði um 470 þúsund tonn sem er samdráttur um 55% frá hámarkinu 2018.

Dregnar eru fram þrjár mismunandi sviðsmyndir sem sýna eldsneytisspá við ólíkar aðstæður.

  • Hægar framfarir: Sviðsmyndin gerir ráð fyrir minni efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá ásamt hægari orkuskiptum.
  • Aukin orkuskipti: Sviðsmyndin gerir ráð fyrir óbreyttum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.
  • Græn framtíð: Sviðsmyndin gerir ráð fyrir auknum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda ásamt því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.

Gagnvirk framsetning

Skýrslan er gefin út í hefðbundnu skýrsluformi á vefsíðu Orkustofnunar og þar má einnig sjá í fyrsta skipti gagnvirka framsetningu á orkuspánni þar sem hægt er að velja notkunarflokka, eldsneyti og staðsetningu og sjá niðurstöður í grunnspá og sviðsmyndum.