Endurbætt útivistarsvæði við Esju

22.12.2021

Fréttir
A scenic landscape showing a field of purple flowers, a lake and a majestic mountain under a cloudy sky

Mynd af Esjuhlíðum.

Síðastliðin sex ár hefur EFLA unnið með Skógræktarfélagi Reykjavíkur að framkvæmdum varðandi þróun og endurbætur á útivistarsvæðinu við Esjuna, en svæðið er eitt það vinsælasta á höfuðborgarsvæðinu. EFLA sá m.a. um hönnun, ráðgjöf og útfærslu á nýjum göngu- og hjólastígum þar sem öryggis- og aðgengismál voru höfð að leiðarljósi.

Endurbætt útivistarsvæði við Esju

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjón með útivistarsvæðunum í Esjuhlíðum frá aldamótum og sinnt þar uppbyggingu og viðhaldi til að dreifa álagi og mæta fjölbreyttum þörfum ólíkra hópa. Gönguleiðin um Esjustíg að Steini og Þverfellshorni er ein vinsælasta gönguleið landsins og a.m.k. 100.000 manns ganga hana á hverju ári. Það hefur því verið mikið álag á aðalstígunum upp að Steini og Þverfellshorni sem hefur kallað á endurbætur.

Þróun og endurbætur

Til þess að minnka álagið á gönguleiðinni að Steini og Þverfellshorni var lögð áhersla á að stækka svæðið og opna mun stærra og fjölbreyttara útivistar- og ferðamannasvæði til austurs af hinni vinsælu gönguleið. Einnig voru núverandi stígar endurbættir og/eða endurgerðir, þar á meðal var aðalstígurinn að Þverfellshorni og Steini frá Mógilsá að Þvergili endurbættur og lega stíga við Einarsmýri var breytt til þess að vernda viðkvæm gróðurlendi. Stækkunin á útivistarsvæðinu fól meðal annars í sér að gerð var tengileið frá Mógilsá að Kollafjarðará sem hægt er að fara gangandi og hjólandi og út frá þeirri tengileið liggja nýjar hjóla- og gönguleiðir.

Hægt er að skoða neðangreind kort til að sjá göngu- og hjólastígana.

Göngukort Esja

Út frá uppsafnaðri notkun í forritinu Strava má sjá að notkun á öllum leiðum er orðin nokkuð almenn þrátt fyrir að stutt var síðan þær komu til. Þetta sýnir að markmiðið um að dreifa álaginu á stígana á stærra svæði miðar vel áfram.

A map with marked trail and contour lines

Kort af göngu- og hjólaleiðum í Esjuhlíðum (einnig er hægt að opna ofangreint pdf. skjal).

A map with marked trail and glowing lines

Hitakortsmynd af göngu- og hjólaleiðum við Esjuna. Mynd: Strava.

Bætt aðgengi og aukið öryggi vegfarenda

Verkefnin sem EFLA hefur unnið að á svæðinu hafa því bætt aðgengi og öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og stuðlað að þróun og útvíkkun útivistarsvæðisins í Esjuhlíðum. Þróunin leiddi til þess að umferðin dreifðist á stærra svæði og er umfang skipulags stígakerfis gönguleiða, aðkomuleiða og hjólaleiða nú um 23 km.

Nýir og endurbættir stígar hafa nú þegar sannað ágæti sitt með minnkandi slysatíðni og með greiðari aðkomu björgunaraðila að slysstað, auk þess sem nýjar keðjur á Þverfellshorni hafa aukið öryggi vegfarenda.

Hægt er að lesa nánar um verkefnið og umfang þess.

Myndagallerý