Endurbætur hafnar á Varmárskóla eftir úttekt EFLU

10.07.2019

Fréttir
A white building facade featuring the name "VARMARSKOLI"

EFLA framkvæmdi heildarúttekt varðandi endurbætur og viðhald á Varmárskóla í Mosfellsbæ.

EFLA verkfræðistofa mun sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki fyrir Mosfellsbæ við endurbætur og viðhaldsaðgerðir á húsnæði Varmárskóla. EFLA framkvæmdi heildarúttekt í apríl og maí 2019 en samkvæmt viðhaldsáætlun Mosfellsbæjar var kominn tími á viðhald og úrbætur. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar aðeins tveimur vikum eftir að niðurstaða heildarúttektar liggur fyrir þar sem loftgæði og vellíðan notenda er höfð í fyrirrúmi.

Hlutverk EFLU er einkum að sinna áframhaldandi rannsóknum á húsnæði skólans á meðan framkvæmdum stendur vegna mögulegra rakaskemmda til að greina orsakir og meta afleiðingar.

Úrbætur lagðar til

Í niðurstöðum EFLU að loknum rannsóknum í byrjun júní á húsnæðinu kom fram að þar finnast rakaskemmdir og örveruvöxtur sem þurfi að bregðast við. Í framhaldi leggja sérfræðingar EFLU til úrbætur þar sem rakaöryggi er haft að leiðarljósi. Þar sem rakavandamál greinast í byggingarhluta og orsök megi rekja til rakaflæðis eða eldri byggingarhefða er lögð til önnur uppbygging eða breytt efnisval sem takmarkar vanda vegna rakaþéttingar og leka.

EFLA ráðgjafi yfir framkvæmdartíma

Mosfellsbær hefur fengið að verkefninu sérhæfða verktaka sem hafa sótt námskeið í hreinsun á rakasvæðum á vegum IÐUNAR fræðsluseturs. EFLA leggur til sérsniðna verkferla og verklýsingar við framkvæmdir og hreinsun. EFLA verður í hlutverki ráðgjafa á meðan framkvæmdum stendur og annast eftirlit. Eignasvið Mosfellsbæjar hefur skipulagt verkefnið þannig að tveir sérhæfðir verktakar standa að framkvæmdum innandyra og enn aðrir verktakar fara bráðlega að hefjast handa við lagfæringu á þaki utandyra og þéttingu á veðurhjúp hússins. Einnig hefur þegar verið byrjað á lagfæringu á rakavarnarlagi og uppbyggingu í þaki innandyra í elstu álmu yngri deildar.

Aðgerðir hafnar að lokinni úttekt

Mosfellsbær sýnir með framtakinu frumkvæði og framsýni til að fara skipulega í allar aðgerðir til að bæta innivist strax að lokinni heildarúttekt og sértækum verkferlum fylgt við framkvæmdir.

Niðurstöður rannsókna voru kynntar á tveimur opnum fundum og fyrir liggur vilji um samvinnu við skólasamfélagið. Markmiðið er að ljúka því að fjarlægja rakaskemmt byggingarefni innandyra í yngri og eldri deild Varmárskóla áður en kennsla hefst í ágúst.

EFLA kemur til með að láta vita af framvindu verkefnisins í sumar. Upplýsingar um framkvæmdir, framgang mála og skipulag verða einnig aðgengilegar fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra á vef Mosfellsbæjar.

Aðrir tenglar

Mosfellingur 4. júlí 2019

Mosfellingur 13. júní 2019