Endurnýjanlegt eldsneyti fyrir millilandaflug

28.11.2024

Fréttir
Tvær konur á uppstilltri mynd.

Anna Lilja Sigurðardóttir og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingar í orkumálaráðgjöf og endurnýjanlegri orku hjá EFLU.

Anna Lilja Sigurðardóttir og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingar í orkumálaráðgjöf og endurnýjanlegri orku hjá EFLU, voru starfsmenn starfshóps sem hafði það hlutverk að skoða og leggja fram tillögur að því hvaða leiðir séu færar til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug.

Sjálfbært þotueldsneyti

Starfshópurinn telur að innleiðing sjálfbærs þotueldsneytis sé lykilatriði til að íslenskir flugrekstraraðilar geti staðið við alþjóðlegar kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrslan undirstrikar að án sjálfbærs þotueldsneytis verði orkuskipti í flugi ekki möguleg á næstu árum.

Til skamms tíma er lagt til að sjálfbæru þotueldsneyti verði blandað við hefðbundið þotueldsneyti en eftir 2035 er búist við nýrri tækni, svo sem vetnishreyflum. Evrópskar reglugerðir, eins og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og ReFuel-gerðin, munu knýja fram orkuskipti með hvötum og íblöndunarkröfum.

Starfshópurinn leggur m.a. til að tryggt verði aðgengi að sjálfbæru þotueldsneyti hérlendis, greind verði áhrif orkuskiptagjalds á flugfarþega og að styrkir og aðgengi að orku fyrir framleiðslu sjálfbærs þotueldsneytis verði tryggt. Jafnframt er bent á mikilvægi þess að setja ramma fyrir vindorkuvinnslu til að mæta orkuþörf, sem er veruleg ef framleiða á rafeldsneyti innanlands. Til dæmis þyrfti 172 MW af vatnsafli eða 268 MW af vindafli til að uppfylla lágmarksíblöndunarskyldu árið 2040.

Tillögur starfshópsins miða að því að styðja við sjálfbæran vöxt flugrekstrar og framlag Íslands til loftslagsmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði starfshópinn í febrúar 2023. Hópinn skipuðu: Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður hópsins, Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, Erla Sigríður Gestsdóttir, Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, Ingvi Már Pálsson, Orri Páll Jóhannsson og Valgerður B. Eggertsdóttir.

Skýrsluna má lesa hér.