Fimm hollráð til húseigenda

19.07.2019

Blogg
Ljósmynd af þvottahúsi, þvottavél og tvær þvottakörfur, röð og regla. Viðarpanell á vegg og parket á gólfi.

Í þvottahúsum er gjarnan heitt og rakt og mikilvægt að lofta þar vel um og þurrka raka.

Sumarið er góður tími til að sinna reglulegu viðhaldi og endurbótum á húsnæði. Þannig er hægt að draga úr líkum á rakaskemmdum auk þess sem vel við haldið húsnæði eykur bæði líftíma, virði og notagildi.

Kröfur okkar um þægindi

Myglusveppir eru nauðsynlegir í náttúrunni og mikilvægir í hringrás hennar þó svo að við viljum ekki búa undir sama þaki og þeir. Myglugró sem myglusveppir framleiða berast með loftinu og finnast víða. Þau geta lent undir gólfefnum, innan í sökklum, veggjum, innréttingum og í þakrými. Þaðan geta gróin vaxið upp í myglusvepp ef þau fá til þess nægilegan raka. Gró þurfa mismunandi aðstæður, æti og rakamagn til þess að verða að myglusvepp.

Í okkar daglegu athöfnum notum við vatn á hverjum degi og því má gera ráð fyrir því að á einhverjum stöðum nái mygla og rakasæknar örverur að myndast. Þannig geta örverur verið að finna í þéttiefnum við bað og sturtu, í niðurföllum og meðfram rúðum. Við verðum því að hegða okkur í samræmi við þau þægindi sem við kjósum og gæta þess að raki myndist ekki í húsnæðinu.

Fimm hollráð húseigandans

Við höfum tekið saman fimm hollráð fyrir húseigendur sem eru til þess fallin að draga úr líkum á rakaskemmdum og myndun gróa eða myglu.

1. Sinna reglubundnu viðhaldi á fasteign

 • Sinna viðhaldi og eftirfylgni á húsinu, t.d. með ástandi lagna, útveggja, glugga, þakrenna og þaks
 • Skoða reglulega þéttingar meðfram gluggum og hurðum
 • Kanna ástand þakrenna og drenlagna
 • Mála reglulega og vatnsverja þar sem þarf
 • Fylgjast með þéttiefnum í votrýmum, endurnýja og vatnsverja reglulega

2. Rétt viðbrögð við leka og vatnstjóni

 • Bregðast strax við vatnstjóni og þurrka svæði. Ef þörf þykir skal opna inn í byggingarhluta og hefja þurrkun
 • Það ber venjulega lítinn árangur gegn myglu að láta svæði þorna án frekari afskipta
 • Þurrka raka við rúður og vatn eftir bað- og sturtuferðir
 • Þurrka vatn við rúður á köldum vetrardögum

3. Fylgjast með rakaálagi innanhúss

 • Fylgjast þarf með loftraka innandyra en fjögurra manna fjölskylda gefur frá sér um 40-60 lítra af vatnsmagni á viku við hefðbundið heimilishald
 • Gott er að hafa loftrakamæli á heimilinu og fylgjast með loftrakanum. Þannig er hægt að læra af venjum og hegðun íbúa hvenær rakaálag eykst og loftraki hækkar
 • Rakaálag eykst við sturtu- og baðferðir, þurrkun á þvotti, matseld og viðveru fólks í húsnæði
 • Loftraki innandyra hér á landi er vanalega á milli 20-40% að vetrarlagi og aðeins hærri á sumrin en ætti ekki að fara mikið yfir 55%

4. Tryggja regluleg loftskipti

 • Reglulega þarf að skipta um loft innandyra til að minnka uppsöfnun á raka, efnum og gróum innandyra
 • Opna glugga, helst upp í vind, og láta gusta í gegnum húsnæðið
 • Hafa rifu á svefnherbergisglugga en það hefur líka jákvæð áhrif á svefngæði
 • Hægt er að fá mæla sem nema koltvísýring, CO2 og VOC (rokgjörn lífræn efni) og gefa þeir vísbendingar um loftgæði og loftskipti. Mælarnir fást á viðráðanlegu verði á mörgum sölustöðum

5. Þrif og rykhreinsun mikilvæg

 • Þar sem ryk safnast fyrir, raki þéttist eða vatn lekur eru meiri líkur á að mygla nái að vaxa upp og noti rykið sem æti
 • Þrif eru því öflugar forvarnir þar sem það dregur úr loftbornum ögnum í innilofti og ryki
 • Rykhreinsun eða ryksugun með HEPA síum geta bætt loftgæði innandyra en þær fanga smáar agnir. Gott er að velja síur með númer H12 eða H13

Sumarið er tíminn

Það er tilvalið að skoða ástand húsnæðis yfir sumartímann eins og þéttingar og málningu. Jafnvel getur verið gott að fá úttekt fagaðila vegna viðhalds og forgangsraða aðgerðum. Þannig væri hægt að fá ástandsskoðun og ráðleggingar varðandi næstu skref um viðgerðir og útfærslur ef þörf þykir.

Síðastliðin 12 ár hef ég fengist við skoðanir á byggingum og finnst mér bagalegast að koma að verkefnum þar sem kostnaðarsamar aðgerðir hafa verið framkvæmdar án faglegs álits. Í þeim verkefnum hefur vantað upp á þekkingu á rakaöryggi og virkni bygginga, undirbúningi er ábótavant og viðgerðir bera ekki tilætlaðan árangur. Það er gríðarlega mikilvægt að vanda vel til verksins í upphafi og spara ekki aurinn fyrir krónu.

Gangi ykkur vel með viðhald húsnæðisins í sumar!