EFLA hefur hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Loftslagssjóði fyrir nýsköpunar- og þróunarverkefni sem fyrirtækið vinnur að.
Styrkveitingarnar eru mikilvægur þáttur í áframhaldandi rannsóknum og styðja við þá nýsköpun sem á sér stað hjá EFLU. Um er að ræða þrjár úthlutanir úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og tvær úr Loftlagssjóði.
Hampsteypa, vetni og snjallar samgöngur
Nýsköpunarsjóður námsmanna veitir styrki til rannsókna- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. EFLA sótti um styrk til þriggja verkefna, sem fengu öll brautargengi, og verða þau unnin af námsmönnum í sumar undir styrkri leiðsögn ábyrgðarmanna fyrirtækisins. Viðfangsefni verkefnanna þriggja eru ólík og snúast m.a. um hönnun íslenskrar hampsteypu til byggingargerðar, framleiðslu og útflutning á fljótandi vetni og snjallari almenningssamgöngum.
Í ár bárust sjóðnum 642 umsóknir fyrir 950 háskólanema og hlutu 206 verkefni styrk.
Matarspor og þurrkun timburs
Loftslagssjóður úthlutaði EFLU styrk til tveggja verkefna, annars vegar Matarspori – kolefnisreikni máltíða og hins vegar fyrir samstarfsverkefni EFLU og Skógræktarinnar þar sem markmiðið er að kanna þurrkun á timbri með jarðvarma. Hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Loftslagssjóði bárust 158 umsóknir um styrki og voru það 24 verkefni sem hlutu styrk.
Nýsköpun til hagsbóta fyrir samfélagið
Starfsfólk EFLU er afar þakklátt fyrir ofangreinda styrki sem styður nýsköpunar- og þróunarvinnu fyrirtækisins enda mikil áherslu lögð á þennan málaflokk í starfseminni, samstarfsaðilum og samfélaginu til hagsbóta.