Fjórða iðnbyltingin á mannamáli

17.04.2019

Blogg
Ljósmynd innan úr verksmiðju þar sem róbotarmur er við vinnu. EFtirlitsmaður með hjálm fylgist með róbotanum

Iðnbylting er þegar tæknileg framþróun gerbreytir hvernig við gerum hlutina og í dag erum við stödd á þeirri fjórðu.

Greinina skrifaði starfsfólk iðnaðarsviðs EFLU.

Saga iðnbyltinga

Sú fyrsta markaði upphafið af iðnaði eins og við þekkjum í dag með vélvæðingu á ferlum, sem áður voru gerðir í höndum, og var knúin áfram af vatnsafli og gufu.

Sú næsta oft nefnd tæknibyltingin kom með rafvæðingunni. Með tilkomu færibanda og framleiðslulína var hægt að fjöldaframleiða hluti. Hún stóð yfir til upphafs fyrri heimstyrjaldarinnar 1914.

Sú þriðja, oft nefnd stafræna byltingin, hófst eftir seinni heimstyrjöldina með tilkomu tölvunnar og með tilkomu reiknigetu hennar gerbreyttist iðnaðurinn. Sjálfvirkni ruddi sér til rúms með tilkomu stafrænnar reiknigetu, stafrænna skynjara, vinnuþjarka (vélmenna) og stýringa af ýmsum toga. Stafræn samskipti gerbreyttu iðnaðinum og samfélaginu sem heild og urðu stafrænir miðlar hluti af okkar daglega lífi, bæði við vinnu og afþreyingar.

Fjórða iðnbyltingin byggir á stafrænum grunni sem tengir saman ýmiss konar tækni og getur leitt til grundvallarbreytinga á hagkerfum, fyrirtækjum og þjóðfélögum. Fjórða iðnbyltingin kemur í almenna umræðu eftir árlegan fund Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) árið 2016 í Davos í Sviss þar sem fjórða iðnbyltingin var rædd eftir að stjórnarmaður samtakanna, Klaus Schwab, gaf út bók með sama nafni.

Drifkrafturinn á bak við fjórðu iðnbyltinguna er þroskastig gervigreindar og upplýsingarflæðis milli kerfa sem gera þau notandavænni en áður.

Talið er að fjórða iðnbyltingin muni fara mun hraða yfir en þær fyrri og hafa viðtækari áhrif.

Við eigum samskipti daglega við gervigreind hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Það verður sífellt algengara að fyrirspurnagáttir, bæði í tali og texta, noti gervigreind í samskiptunum. Rútínuvinna hvort sem um er að ræða í verksmiðju, verslun eða á skrifstofu er smám saman að færast úr mannahöndum og yfir í sjálfvirkni. Þetta losar um verðmætan tíma hjá okkur mannfólkinu sem hægt er að nýta til dæmis í meira skapandi hluti.

Myndin sýnir fjögur stig iðnbyltingarinnar.

Myndin sýnir fjögur stig iðnbyltingarinnar. Mynd: Christoph Roser, AllaboutLean.com.

Gervigreind notuð til gagnavinnslu

Í sinni einföldustu mynd gengur gervigreind út á að láta tölvur nota styrkleika sinn til að vinna með gríðarlegt gagnamagn og finna samhengi í gögnunum. Þetta opnar nýja möguleika og stóreykur notagildi í daglegu lífi. Þannig hefur með tilkomu þrívíddarprentunar og sýndarveruleika orðið hugarfarsbreyting hvað farðar framleiðslu og framsetningu gagna. Með sívaxandi gagnaflæði aukast möguleikarnir á því að skapa verðmætar upplýsingar úr áður ónýttum gögnum. Einnig hafa miklar framfarir orðið í myndgreiningu að sama skapi og eru sjálfkeyrandi ökutæki nálægt því að gera vöruflutningar ómannaðar.

Samfélagslegar afleiðingar erum við ekki almennilega farin að sjá en línur þó farnar að skýrast í því.

Fjórða iðnbyltingin er komin, hvar vilt þú vera?

Fyrirtæki þurfa að vera í stakk búin til að grípa þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin hefur að bjóða til þess að vera samkeppnishæf á markaði.

Öflugt og þverfaglegt teymi starfar hjá EFLU við að útbúa lausnir fyrir íslensk framleiðslufyrirtæki svo þau geti nýtt sjálfvirkni betur í starfsemi sinni. Með sjálfvirknigreiningu fæst yfirsýn yfir núverandi sjálfvirknistig og þau virðisaukandi tækifæri sem eru möguleg en aukin skilvirkni getur skilað sér í aukinni arðsemi.