Formleg opnun Vaðlaheiðarganga

14.01.2019

Fréttir
Many people dressed in colorful reflecting clothes, standing in front of a tunnel

Frá opnunarhátíð Vaðlaheiðarganga.

Laugardaginn 12. janúar fór fram formleg opnun Vaðlaheiðarganga, vegganga milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. EFLA í samstarfi við GeoTek var eftirlitsaðili með framkvæmdunum. Að auki sá EFLA um hönnun rafbúnaðar í göngunum og vega utan ganga.

Formleg opnun Vaðlaheiðarganga

Fjölmenni var samankomið á opnunarhátíð ganganna og fjölbreytt dagskrá fór fram um daginn. Fyrir formlega vígslu ganganna var mikið um að vera, hlaupafólk, jógaiðkendur og hjólaskíðafólk héldu æfingu í göngunum og tónlistarflutningur fór fram. Eftir ræðuhöld og borðaklippingu keyrðu fyrstu bílar frá Fornbílaklúbbi Akureyrar í gegnum göngin.

Í einu neyðarrýmanna var sett upp kynning verktaka og framkvæmdaraðila og hægt var að fræðast um framvindu verkefnisins. EFLA tók þátt í sýningunni og starfsmenn sem unnu við framkvæmdirnar voru á staðnum og spjölluðu við gesti um verkefnið.

Lengsta orð íslenskrar tungu

Við gerð ganganna var hinn eini sanni „Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymslu­skúrslyklakippuhringurinn“ notaður í verkfærageymslu og af því tilefni létu starfsmenn EFLU grafa hið virðulega orð á lyklakippu og afhentu lykilinn forsvarsmönnum Vaðlaheiðarganga. Lykillinn sem státar af lengsta orði íslenskrar tungu verður því vel varðveittur hér eftir.

A long Icelandic text engraved on silver object attached to keys

Fjölmargar áskoranir við verkefnið

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hófust vorið 2013 en gegnumbrot ganganna fór fram vorið 2017. Margvíslegar áskoranir og ófyrirséðir atburðir áttu sér stað við gerð ganganna sem gerðu það að verkum að gerð þeirra seinkaði verulega. Heit vatnsæð opnaðist inn í göngin árið 2014, jafnframt sem hitastig í göngunum varð mjög hátt á löngum köflum. Brugðist var við því með umfangsmiklum bergþéttingum og öðrum aðgerðum til að kæla göngin. Þá hrundi stafn ganganna í Fnjóskadal saman þegar farið var í gegnum stórt brotabelti og vatn flæddi inn í göngin í kjölfarið.

Hlutverk EFLU

Hlutverk EFLU í framkvæmdunum var að hafa eftirlit með framkvæmdunum, jarðgangagerð, steyptum mannvirkjum, vegagerð, lögnum og rafkerfum.

Vaðlaheiðargöng koma til með að vera mikil samgöngubót fyrir íbúa Eyjafjarðarsvæðisins og þarf ekki lengur að keyra Víkurskarð sem getur verið erfitt yfirferðar yfir vetrartímann. Göngin koma til með að stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km.

EFLA óskar íbúum og vegfarendum á svæðinu til hamingju með nýju göngin og þakkar forsvarsmönnum verkefnisins og öllum þeim sem tóku þátt í gerð ganganna fyrir ánægjulegt samstarf.

Verkefnalýsing Vaðlaheiðarganga