Fræðsluvika um umhverfismál

30.04.2021

Fréttir
A group of six people, four standing and two seated, posing for a picture in an indoor setting with large windows and modern furnishing

Kröftugur hópur frá EFLU sá um fræðslu til starfsmanna í umhverfisviku. Frá vinstri: Alexandra Kjeld, Helga J. Bjarnadóttir, Ragnar Gauti Hauksson, Ingimar Jóhannsson, Jón Heiðar Ríkharðsson og Eva Yngvadóttir.

Árleg umhverfisvika starfsfólks EFLU fór fram 26. til 30. apríl við góðar undirtektir. Markmið umhverfisviku er að stuðla að aukinni vitund, þekkingu og hæfni starfsfólks um málaflokk umhverfismála í breiðum skilningi.

Fræðsluvika um umhverfismál

Umhverfismál eru mikilvægur hluti af daglegu störfum okkar en mesti áhrifamáttur EFLU er fólginn í þeirri ráðgjöf sem sinnt er daglega til tugi fyrirtækja. Mikil áhersla er lögð á umhverfisstjórnun í allri starfseminni, hvort sem er varðandi ráðgjöf, rekstur eigin skrifstofu og við val á birgjum og í innkaupum. Inn í þessar áherslur fléttast samfélagsleg ábyrgð, hringrásarhagkerfi og sjálfbærni sem mið er tekið af í stefnumörkun EFLU.

Í umhverfisvikunni fóru fram áhugaverð hádegiserindi, í beinu streymi, þar sem starfsfólk sagði frá áhugaverðum verkefnum sem tengjast vistvænni nálgun í verkefnum og sjálfbærni. Instagram reikningur starfsfólks var tileinkaður umhverfismálum og margvíslegur fróðleikur og skemmtilegheit fór þar fram við miklar vinsældir.

Umhverfismál samofin starfseminni

Efnaverkfræðingarnir Eva Yngvadóttir og Helga J. Bjarnadóttir héldu erindi um umhverfismál í starfseminni og sögðu frá niðurstöðum í tengslum við umhverfismarkmið EFLU. Niðurstöðurnar verða birtar í samfélags- og sjálbærniskýrslu EFLU sem kemur út á næstu dögum.

Vistvænn samgöngumáti og kolefnisspor mannvirkja

Ragnar Gauti Hauksson, samgönguverkfræðingur, fjallaði um fjölbreytta möguleika vistvænna samgöngumáta og frá nýlegri gull-hjólavottun EFLU. Þá fræddi Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur, starfsmenn um kolefnisspor mannvirkja og varpaði ljósi á mikilvægi þess að hanna hverja einustu vöru og þjónustu með vistvænum hætti, hvort sem um er að ræða drykkjarvörur eða skrifstofubyggingu. Slíkt væri jákvætt bæði fyrir umhverfið og starfsemina.

Hampsteypa og rafeldsneyti

EFLA leggur mikla áherslu á nýsköpun og þróun í starfseminni og sögðu fulltrúar slíkra verkefna, Ingimar Jóhannsson, burðarverkfræðingur, og Jón Heiðar Ríkharðsson, vélaverkfræðingur, frá mýmörgum áhugaverðum nýsköpunarverkefnum, annars vegar í tengslum við hampsteypu og hins vegar í tengslum við svokallað rafeldsneyti.