Byggingarframkvæmdum við Hús íslenskunnar miðar vel áfram og um þessar mundir stendur yfir uppsteypa fyrstu hæðar hússins. EFLA er í hlutverki byggingarstjóra í verkefninu og sá um hljóðvistarhönnun, bruna- og öryggishönnun og umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM.
Framkvæmdir við Hús íslenskunnar
Framkvæmdum við Hús íslenskunnar, sem hófust í júlí 2019, miðar vel áfram og er verkið á áætlun þrátt fyrir erfitt veðurfar í desember og janúar. Þessa dagana er verið að steypa upp fyrstu hæð hússins og er byrjað að setja upp stálsúlur og -bita. Bílakjallari og kjallari byggingarinnar eru komnir upp. Áætlað er að byggingarframkvæmdum ljúki um sumarið 2022 og að húsið verði tekið í notkun á árinu 2023.
Vistvæn bygging
Húsið kemur til með að hýsa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskudeild Háskóla Íslands. Stefnt er að því að votta bygginguna sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlegavottunarkerfinu BREEAM.
Byggingarstjórn og framkvæmdaeftirlit í höndum EFLU
Hönnuðir hússins eru Hornsteinar arkitektar og Verkís og er Ístak verktaki framkvæmdanna. EFLA sá um bruna- og öryggishönnun og hljóðhönnun hússins ásamt því að veita umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM vottun. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) sem sér um framkvæmdina.
EFLA sinnir hlutverki byggingarstjóra við bygginguna og hefur jafnframt eftirlit með framkvæmdum.
Frétt FSR um framkvæmdina.