Framkvæmdir við Hús íslenskunnar

20.04.2020

Fréttir
An urban construction site with huge yellow cranes and a cityscape in the distance under overcast skies

Fyrsta hæð Húss íslenskunnar er komin upp og sporöskjulagað form byggingarinnar farið að myndast. Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins.

Byggingarframkvæmdum við Hús íslenskunnar miðar vel áfram og um þessar mundir stendur yfir uppsteypa fyrstu hæðar hússins. EFLA er í hlutverki byggingarstjóra í verkefninu og sá um hljóðvistarhönnun, bruna- og öryggishönnun og umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM.

Framkvæmdir við Hús íslenskunnar

Framkvæmdum við Hús íslenskunnar, sem hófust í júlí 2019, miðar vel áfram og er verkið á áætlun þrátt fyrir erfitt veðurfar í desember og janúar. Þessa dagana er verið að steypa upp fyrstu hæð hússins og er byrjað að setja upp stálsúlur og -bita. Bílakjallari og kjallari byggingarinnar eru komnir upp. Áætlað er að byggingarframkvæmdum ljúki um sumarið 2022 og að húsið verði tekið í notkun á árinu 2023.

Vistvæn bygging

Húsið kemur til með að hýsa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslenskudeild Háskóla Íslands. Stefnt er að því að votta bygginguna sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlegavottunarkerfinu BREEAM.

Byggingarstjórn og framkvæmdaeftirlit í höndum EFLU

Hönnuðir hússins eru Hornsteinar arkitektar og Verkís og er Ístak verktaki framkvæmdanna. EFLA sá um bruna- og öryggishönnun og hljóðhönnun hússins ásamt því að veita umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM vottun. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) sem sér um framkvæmdina.

EFLA sinnir hlutverki byggingarstjóra við bygginguna og hefur jafnframt eftirlit með framkvæmdum.

Frétt FSR um framkvæmdina.

computer generated architecture of a circular building with different skylights

Hús íslenskunnar, Arngrímsgötu 5. Líkanmynd: Hornsteinar arkitektar.