Team Spark er þróunarverkefni við Háskóla Íslands þar sem nemendur hanna og smíða rafknúinn kappakstursbíl sem keppir í alþjóðlegu verkfræðikeppninni Formula Student. Verkefnið hefur verið starfrækt frá árinu 2010 og hlaut styrk úr Samfélagssjóði EFLU í vorúthlutun 2025.
Verkfræðinám í verki
Frá upphafi hefur Team Spark stuðlað að aukinni verkfræðikunnáttu og veitt nemendum dýrmæt tækifæri til að takast á við raunveruleg verkefni tengd rafknúnum ökutækjum. Verkefnið er skipulagt í kringum áfangann Hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls og veitir sex einingar yfir tvær annir. Nemendur vinna í sex teymum sem sinna meðal annars burðarvirkjun, rafmagnsmálum og loftfræði. Liðið hefur þróað með sér skipulag og ferla sem stuðla að betri miðlun þekkingar og aukið framleiðni nýliða í hópnum.
Árið 2018 skipti Team Spark úr stálgrind yfir í einbolung úr koltrefjum með 'honey-comb' álkjarna í samstarfi við Össur. Þessi framleiðsluaðferð hefur síðan verið þróuð áfram og notuð til að framleiða vængi bílsins. Niðurstaðan er einstaklega slétt áferð sem vekur athygli annarra Formula Student liða og hefur leitt til fjölda fyrirspurna á keppnum.
Undirbúningur fyrir alþjóðlega keppni
Undirbúningur fyrir keppni er viðamikið ferli sem felur í sér að ljúka smíði bílsins, skila inn tækniskjölum og myndböndum sem sýna fram á öryggi og hönnun ökutækisins, undirbúa kynningar og rökstuðning fyrir keppnisliði og samhæfa flutning á búnaði og þátttakendum til og innan Evrópu.
Liðið leggur áherslu á að vega og meta hvort rétti mannskapurinn og nægur tími sé til staðar áður en haldið er út. Þegar keppni er hafin lærir liðið mest af öðrum liðum sem eru tilbúin að deila þekkingu sinni og hönnun. Þessi reynsla er ómetanleg fyrir ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref sem verkfræðingar.
Team Spark hefur átt í góðu samstarfi við fjölmörg íslensk fyrirtæki og eru tækifæri til frekara samstarfs fjölmörg. Verkefnið býður fyrirtækjum að taka þátt í þróun og miðlun þekkingar og gefur verkfræðinemum tækifæri til að kynnast atvinnulífinu og fá leiðsögn frá reyndari verkfræðingum. Liðið vill efla kynningu á verkefninu og skapa vettvang fyrir reynslumikla sérfræðinga til að miðla þekkingu sinni til næstu kynslóða.
Framtíð Team Spark er björt og það er ekki síst vegna þeirra frábæru nýliða sem gengu til liðs við verkefnið á síðasta ári. Það er einstakt að fylgjast með skólakrökkum taka sín fyrstu skref sem verkfræðingar og við hjá EFLU erum stolt af því að styðja við verkefni sem eflir menntun og nýsköpun á Íslandi.
Veittir eru styrkir úr Samfélagssjóði EFLU tvisvar á ári. Hægt er að fá frekari upplýsingar og sækja um styrki á vefsíðu sjóðsins.