Framúrskarandi á sviði umhverfismála

29.08.2019

Fréttir
A man in a blue suit posing with a smile

Sigurður Loftur Thorlacius hjá EFLU.

Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, hefur verið tilnefndur til verðlaunanna „Framúrskarandi ungir Íslendingar“. Verðlaunin eru veitt árlega af JCI á Íslandi og eru hvatningarverðlaun til ungs fólks sem lætur til sín taka í krefjandi og athyglisverðum verkefnum.

Framúrskarandi á sviði umhverfismála

Við settumst niður með Sigurði Lofti og tókum stutt spjall við hann um tilnefninguna. „Ég er virkilega þakklátur þessari viðurkenningu og mikill heiður að vera tilnefndur sem framúrskarandi ungur Íslendingur. Í starfi mínu hjá EFLU vinn ég að umhverfis- og loftslagsmálum og það er eitthvað sem ég brenn svo sannarlega fyrir, enda þurfum við öll sem eitt að leggjast á árarnar og snúa vörn í sókn hvað loftslagsmálin varðar.“ sagði Sigurður Loftur. Loftslagsmálin hafa verið í brennidepli undanfarið og mikil umræða skapast um kolefnisspor og umhverfismál í tengslum við málaflokkinn. En hvað getur fólk gert til þess að leggja hönd á plóginn hvað varðar hnattræna hlýnun vegna losun gróðurhúsalofttegunda. „Það er alveg ljóst að við verðum að grípa til aðgerða strax og þetta er samvinnuverkefni sem snertir bæði stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga. Hinn almenni íbúi getur svo sannarlega lagt sitt af mörkum með því að vera ábyrgur neytandi. Þar á ég við að draga úr matarsóun og kjötneyslu ásamt því að kalla eftir kolefnisspori vöru og þjónustu. Einstaklingar geta líka haft áhrif með því að velja loftslagsvænar samgöngur og fljúga sjaldnar“. segir Sigurður Loftur.

Loftslagsmótmæli ungmenna

Sigurður Loftur starfar einnig með Ungum umhverfissinnum sem hafa skipulagt loftslags­mótmæli ungmenna síðustu misseri og hafa vakið mikla athygli. „Loftslagsmótmælin eru að fara aftur af stað með skipulögðum hætti og erum við ásamt fleiri samstarfsaðilum að skipuleggja viðburði í vikunni 20. – 27. september. Það er alveg ljóst að ungt fólk í heiminum öllum er komið með nóg af aðgerðaleysi og krefjast þess að gripið sé til róttækra aðgerða áður en það er orðið of seint. Loftslagsváin er mikið áhyggjuefni og það verður að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið undir eins.“

Kolefnisspor máltíða

Hjá EFLU starfar Sigurður Loftur að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að umhverfismálum í stóru samhengi. Eitt af þeim þróunarverkefnum sem hann hefur komið að er Matarspor, matarreiknivél sem sýnir kolefnisspor máltíða. „Það var frábært að fá að koma að þessu verkefni og hlaut það heilmikla eftirtekt bæði í fjölmiðlum og meðal fólks. Við höfum unnið að því síðan í vor að þróa þessa þjónustu áfram og erum komin með þjónustuvef sem reiknar út og ber saman kolefnisspor mismunandi máltíða og rétta. Það virkar þannig að skráðar eru uppskriftir ólíkra máltíða og stillir hugbúnaðurinn upp samanburði á kolefnisspori máltíðanna.“ sagði hann. Með þessum hætti getur fólk tekið upplýstari ákvörðun um eigin neyslu og matarvenjur sínar

Tvö hundruð tilnefningar

Verðlaunin eru veitt í 18. skiptið og í ár bárust hátt í tvö hundruð tilnefningar. Dómnefnd velur einn verðlaunahafa af þeim 10 aðilum sem voru tilnefndir og fær viðkomandi nafnbótina „Ungur framúrskarandi Íslendingur 2019“. Niðurstöður dómnefndar verða tilkynntar 4. september næstkomandi.

Listi yfir 10 aðila sem hlutu tilnefningu og á hvaða svið

  • Alda Karen Hjaltalín - störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði
  • Anna Sigríður Islind - störf á sviði tækni og vísinda
  • Einar Stefánsson - störf/afrek á sviði menningar
  • Erna Kristín Stefánsdóttir - framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
  • Pétur Halldórsson - störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála
  • Ragnheiður Þorgrímsdóttir - störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála
  • Róbert Ísak Jónsson - einstaklingssigrar og/eða afrek
  • Sigurður Loftur Thorlacius - störf á sviði siðferðis- og/eða umhverfismála
  • Sólborg Guðbrandsdóttir - framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
  • Sturlaugur Haraldsson - störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði

Við óskum Sigurði Lofti hjartanlega til hamingju með tilnefninguna og megi hún hvetja hann til áframhaldandi dáða á sömu braut.

Nánari upplýsingar á vef JCI

Head shot of several men and women with some text