Fráveitulausn á Mývatni hlýtur viðurkenningu

12.06.2018

Fréttir
A landscape consist of serene lake and hills

Mývatn

Umbótaáætlun Skútustaðahrepps á sviði fráveitumála hlaut viðurkenningu á ráðstefnu um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. EFLA vann að hönnun fráveitulausnarinnar sem felst í söfnun og brottakstri svartvatns ásamt nýtingu þess.

Föstudaginn 8. maí fór fram ráðstefnan Nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 á Grand Hótel í Reykjavík. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“. Ráðstefnan er samvinnuverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnanna, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Ítarleg hreinsun fráveituvatns

Alls bárust 33 tilnefningar í keppnina en Öldrunarheimili Akureyrar báru sigur úr býtum og hlutu aðalverðlaun fyrir verkefnið ALFA – Rafrænt lyfjaumsjónarkerfi. Fjögur önnur verkefni vöktu einnig athygli dómnefndar og voru kynnt sérstaklega á ráðstefnunni og hlutu viðurkenningar. Eitt af þeim var Umbótaáætlun Skútustaðahrepps á sviði fráveitumála en EFLA hefur unnið að hönnun nýrrar fráveitulausnar fyrir sveitarfélagið en þar er gerð krafa um að hreinsun fráveituvatns sé ítarlegri en tveggja þrepa sökum hins viðkvæma viðtaka, Mývatns.

Svartvatn nýtt sem auðlind

Fráveitulausnin sem EFLA hefur hannað gengur út á að meðhöndla salernisskólp, eða svartvatn, sem auðlind sem hægt er að endurnýta í stað þess að líta á það sem úrgang sem þarf að farga. Rekstraraðilar og stofnanir sveitarfélagsins munu taka vacuum salerniskerfi í notkun í sínum byggingum og verður svartvatnið aðskilið frá grávatni, sem er skólp frá baði, þvottahúsi og eldhúsi. Þar sem vacuum salerni nota einungis 1 líter af vatni í hverju skoli verður hægt að lágmarka rúmmál svartvatnsins en því verður safnað í lokaða tanka sem tæmdir verða eftir þörfum.

Svartvatnið verður flutt á Hólasand, sem er landgræðslusvæði í umsjá Landgræðslunnar, en þar verður það síað og sett í geymslutank. Á sumrin verður svartvatnið plægt niður í jarðveg og nýtt til uppgræðslu á völdum svæðum og þar með verður hægt að nýta verðmæt næringarefni í svartvatninu, m.a. fosfór sem er óendurnýjanleg auðlind. Stofnkostnaður þessarar lausnar er um fimm sinnum lægri en við uppsetningu hefðbundinna hreinsistöðva hjá öllum rekstraraðilum og stofnunum, eins og upphaflega stóð til að gera.

Vel að verki staðið

EFLA óskar Skútustaðahreppi og samstarfsaðilum í verkefninu til hamingju með viðurkenninguna og þakkar fyrir ánægjulegt samstarf í verkefninu.

Nánar um aðkomu EFLU að verkefninu.