Fyrsta húsið byggt úr íslenskum viði

14.12.2016

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Asparhúsið í Vallanesi á Fljótsdalshéraði var vígt föstudaginn 25. nóvember síðastliðinn að viðstöddum aðstandendum, iðnaðarmönnum, hönnuðum og öðrum velunnurum verksins. Asparhúsið er fyrsta húsið á Íslandi sem byggt er alfarið úr íslenskum viði. Þannig er allur burðarviður, klæðningar og innréttingar úr íslensku timbri, aðallega úr ösp frá Vallanesi auk, lerkis og grenis.

Fyrsta húsið byggt úr íslenskum viði

Ráðgjafarhlutverk varðandi undirbúning, hönnun og burðarviði

EFLA kom sem ráðgjafi að verkefninu strax á undirbúningsstigi þess í lok árs 2014. Fljótlega var farið að skoða möguleikann á að nota ösp í burðarviði hússins, en það er eitthvað sem hefur ekki verið gert áður. Í framhaldinu var hafist handa við að magntaka og ákveða stærðir sem uppfylltu skilyrði byggingarreglugerðar og viðeigandi byggingarstaðla. Þegar ljóst var að hægt væri að uppfylla þau skilyrði var ráðist í að fella aspir sem voru gróðursettar fyrir 30 árum í Vallanesi. Trjábolunum var flett hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og Skógarafurðum ehf á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal og efnið þurrkað. Burðarviðurinn fyrir Asparhúsið var að lokum tekinn út og vottaður og í kjölfarið hófst smíði hússins í byrjun árs 2016.

EFLA sá um hönnun á burðarvirki, frárennslislögnum og frágangi í samráði Albínu Thordarson, arkitekt hússins.

EFLA óskar aðstandendum Asparhúss á Vallanesi til hamingju með glæsilega byggingu og eftirtektarvert framtak.

Umfjöllun um Asparhúsið í Landandum

Umfjöllun um Asparhúsið á vef Skógræktarinnar

Á myndinni sem er efst uppi í frétt eru frá vinstri talið, Albína Thordarson, arkitekt hússins, Eygló Björk Ólafsdóttir, Móðir Jörð, Eymundur Magnússon, Móðir Jörð og Elis B. Eiríksson, EFLA Austurlandi.