Gagnvirk kort og stafræn miðlun

18.11.2020

Fréttir
A smiling woman with glasses in the foreground and a blurred background of cityscape by a river

Eva Dís Þórðardóttir, skipulagsfræðingur hjá EFLU.

EFLA vinnur með sveitarfélögum að skipulagsmálum og í slíkri vinnu er mikið lagt upp úr samtali og samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hafa óhefðbundnari leiðir verið farnar til að kynna verkefni með fjarfundum, gagnvirkum kortum og stafrænni miðlun.

Gagnvirk kort og stafræn miðlun

Við vinnu að endurskoðun aðalskipulags fyrir sveitarfélög ber sveitarfélögum skylda að halda samráðsfundi. Þar sem ekki hefur verið hægt að halda hefðbundna fundi með íbúum hefur sú leið verið farin að gögnin eru sett stafrænt fram á opnu vefsvæði í landupplýsingakerfi. Þar geta íbúar kynnt sér gögnin á vinnslustigi, komið með ábendingar og hugmyndir.

Gagnvirk kort sýna ólíkar birtingarmyndir

EFLA setur gögnin upp í landupplýsingakerfi sem auðveldar birtingu á gagnvirkum kortum. Þar er hægt að skoða gildandi aðalskipulag og endurskoðun þess ásamt því að hægt er að velja ólíkar birtingarmyndir skipulagstillögu í gagnvirku korti. Haldnir eru rafrænir kynningarfundir þar sem farið er yfir verkefnið og geta íbúar kynnt sér ítarefni.

A satellite map with various marked areas and annotation in Icelandic

Hægt er að smella á mynd til að komast á vefsíðu með landupplýsingakerfi og gagnvirku korti.

Stafræn framsetning gagna komin til að vera

„Það er reynsla okkar sem vinnum í skipulagsmálum að þátttaka íbúa í hefðbundnum samráðsfundum er oftar en ekki minni en við viljum sjá. Þá getur samsetning íbúa sem sækja slíka fundi verið einsleit bæði hvað varðar aldursskiptingu og kynjahlutfall. Ávinningurinn með þessari nýju nálgun er að ná til breiðari hóps fólks og að auka þátttöku yngra fólks með því að hafa t.d. upptöku af kynningarfundum tiltæka á auglýsingatíma sem og gera gögnin aðgengilegri með stafrænum hætti.“ segir Eva Dís Þórðardóttir, sérfræðingur í skipulagsmálum hjá EFLU um málið.

Hún telur jafnframt að þessi leið við kynningu á skipulagsmálum sé komin til að vera því hún styður m.a. við stafræna þróun sveitarfélaga sem og lagalegar kröfur sem Skipulagsstofnun framfylgir. Eva Dís nefnir í þessu samhengi nýlegt verkefni fyrir Árborg þar sem gagnvirkt kortasvæði var notað í verkefninu og til kynningar fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Viltu vita meira um þjónustuna? Sendu okkur tölvupóst og við höfum samband við þig.