Greining á þolmörkum Silfru liggur fyrir

09.07.2019

Fréttir
Few diver in black wet suit about to go under water

Þolmarkagreining fyrir Silfru í Þingvallaþjóðgarði hefur verið gerð.

Gestum sem stunda köfun og yfirborðsköfun í Silfru hefur fjölgað mikið undanfarin ár, eða úr rúmlega 19 þúsund í um 62 þúsund milli áranna 2014 og 2018. Nýverið vann EFLA að mati á þolmörkum Silfru fyrir Þingvallanefnd vegna fjölda gesta.

Um er að ræða fyrsta mat á hámarksfjölda gesta á náttúrustað á landinu. Þessari aukningu gesta hafa fylgt ýmsar áskoranir. Alvarleg slys hafa orðið í Silfru á undanförnum árum og auknum fjölda fylgir aukið álag á náttúru, ásýnd og innviði svæðisins.

Aðgerðir

Til að bregðast við þessari þróun hefur Þingvallaþjóðgarður gripið til ýmissa aðgerða. Þannig hefur eftirlit verið aukið, innviðir styrktir, gjaldtaka innleidd, aðgangsstýringu verið breytt og fyrirmæli sett vegna köfunar og yfirborðsköfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Mikilvægi þjóðgarðsins

Markmið Þingvallaþjóðgarðs er fyrst og fremst að standa vörð um umhverfi, sögu og menningu þjóðgarðsins og stuðla að jákvæðri upplifun gesta í samræmi við það. Því var EFLA fengin til að ráðast í mat á þolmörkum áfangastaðarins, þ.e. að meta hver sé ásættanlegur gestafjöldi í Silfru á ársgrundvelli og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að tryggja að ekki sé gengið á Silfru sem eina af perlum Þingvallaþjóðgarðs. Verkefnið var unnið í samstarfi við bandarískan sérfræðing í stýringu þjóðgarða.

A crowd dressed in warm clothes, queuing or walking along a pathway. The scenery includes a lake and landscape of grasses.

Niðurstöður matsins

Við matið var höfuðáhersla lögð á að starfsemi innan svæðisins megi ekki hafa neikvæð áhrif á gildi Þingvallaþjóðgarðs og að ávallt sé gætt að gæðum og upplifun gesta, öryggi og umhverfismálum. Það er niðurstaða þessa fyrsta þolmarkamats Silfru að ásættanlegt sé að viðhalda sama gestafjölda með hóflegri aukningu. Miðað við óbreytta aðgangsstýringu er talið að Silfra geti tekið á móti allt að 76 þúsund gestum á ári. Þessi niðurstaða er háð ákveðnum skilyrðum er varða aðgangsstýringu, hámarksfjölda hópa, eftirlit, aðgengi viðbragðsaðila og lokanir við ákveðin veðurskilyrði. Jafnframt er lögð áhersla á að sett sé upp vöktun á þáttum er varða umhverfisáhrif, upplifun gesta og innviði.

Lagt er til að þolmörk Silfru verði endurmetin a.m.k. árlega með hliðsjón af niðurstöðum vöktunar og stjórnunarákvarðanir verði teknar á grundvelli niðurstaðna matsins hverju sinni.

Skýrsla EFLU: Þolmarkagreining fyrir Silfru

A serene blue water body surrounded by rugged terrain and distant mountains under a hazy sky