Hafnarskipulagsgreining fyrir uppbyggingu Grindavíkurhafnar

20.06.2023

Blogg
Höfn á Íslandi, lítill bátur og fallegt skýjafar

Mynd: Majid Eskafi

Grindavíkurhöfn er ein af stærri fiskihöfnum landsins og hlutur hafnsækinnar starfsemi í atvinnulífi Grindavíkurbæjar er mikill. Framlag Grindavíkurhafnar til íslenskra hafnartekna var rúm 2.2% árið 2021 og höfnin er því mikilvæg fyrir bæði nærsamfélagið og landið allt.

Sóknarfæri

Sjávarútvegur, fiskeldi og ferðamennska móta starfsumhverfi Grindavíkurhafnar. Landeldi á laxi og silungi hefur verið hérlendis verið umfangsmest á Reykjanesskaganum sé horft til einstakra landshluta, og er þar áframhaldandi uppbygging fyrirhuguð á komandi árum. Þetta hefur í för með sér sóknarfæri fyrir Grindavíkurhöfn. Umtalsverður vöxtur hefur einnig verið í ferðaþjónustu undanfarinn áratug í Grindavík líkt og víða annars staðar á landinu.

Tengt þessum atvinnugreinum eru horfur á að stærð skipa muni fara vaxandi til að nýta stærðarhagkvæmni og til að stefna að umhverfisvænni siglingum á komandi árum.

Höfn á Íslandi, logn og stillt veður

Mynd: Majid Eskafi

Skipulagsgreining

Vel starfandi höfn er mikilvæg fyrir núverandi hafnarnotendur þar sem samfella í rekstri, þróun og uppbyggingu veltur á að höfnin geti annað eftirspurn og viðhaldið og styrkt samkeppnisstöðu sína.

Í þessu samhengi framkvæmdi EFLA skipulagsgreiningu á Grindavíkurhöfn fyrir hafnaryfirvöld. Sú greining var unnin með það að leiðarljósi að sem best komi til með að takast að uppfylla vaxandi eftirspurn hafnarnotenda eftir fullnægjandi innviðum, rekstri og þjónustu, bæði til skemmri og lengri tíma litið.

Teikning sem sýnir skipulagsgreiningu

Þarfagreining meðal hagsmunaaðila

Höfninni tengjast ýmsir hagsmunaaðilar. Virk og vel tímasett þátttaka hagsmunaaðila gegnir mikilvægu hlutverki í farsælli skipulagningu og uppbyggingu hafnarinnar. Í þessu verkefni var unnin þarfagreining meðal hagsmunaaðila Grindavíkurhafnar sem leggja má til grundvallar við frekari skipulagsvinnu sem og fyrir áætlanir um frekari uppbyggingu í höfninni.

  • Niðurstaða þarfagreiningarinnar er í stuttu máli sú að hagsmunaaðilar Grindavíkurhafnar kalla eftir úrbótum á hafnarinnviðum til að mæta núverandi- og framtíðarþörfum hafnarnotenda.

Greining og spá um farmflæði er mikilvæg í hafnarskipulagi til að styðja við fjárfestingarákvarðanir er snúa að uppbyggingu og þróun hafna, s.s. vegna hafnarframkvæmda. Því var framkvæmd greining á gáma- og vöruflæði auk skipaumferð um Grindavíkurhöfn og spá um flæði og umferð sett fram.

  • Greiningar á vöruflutningum sýna fram á hraðan vöxt á komandi áratug og að skipaumferð muni aukast bæði hvað varðar komur og stærð skipa til Grindavíkurhafnar.

Núverandi hafnarinnviðir og þjónusta, sem og tengingar milli núverandi hafnarinnviða, var metið út frá alþjóðlega viðurkenndum leiðbeiningum og út frá því hvort kröfur og þarfir hagsmunaaðila séu uppfylltar.

Líkan sem hermir strauma og öldufar var notað til að skoða áhrif mismunandi legu varnargarða á skilyrði í innsiglingunni og í höfninni.

Líkan sem hermir strauma og öldufar

Greining á samgöngum, efnahagslegum- og félagslegum þáttum tengdum framkvæmdum

Unnin var greining á samgöngum til og frá höfninni sem og á umferð innan hafnarinnar og litið til margvíslegra þátta, s.s. afkastagetu innviða m.t.t. þungaflutninga, áhrif samspils mismunandi umferðar á umferðaröryggi og mögulega truflun vegna umferðar á byggð og aðra nærliggjandi starfsemi.

Fjallað var um flutning sjávarafurða og hvernig aukin atvinnuuppbygging innan Grindavíkur og nærliggjandi sveitarfélaga getur haft áhrif á hafnartengda umferð. Lagðar eru til úrbætur á núverandi fyrirkomulagi umferðar um höfnina til að tryggja greiðar, öruggar og skilvirkar samgöngur milli helstu atvinnu- og iðnaðarsvæða og hafnar.

  • Umferð til og frá höfninni og í höfninni mun aukast á næstu árum.

Hugmyndir að uppbyggingu innviða í höfninni til að auka afkastagetu Grindavíkurhafnar og mæta eftirspurn hagsmunaaðila hafa verið settar fram, byggt m.a. á greiningu á efnahagslegum- og félagslegum þáttum tengdum framkvæmdunum, sem hér segir:

  1. ÁFANGI – uppbygging til skamms tíma (hefst á næstu 5 árum)
  2. ÁFANGI – uppbygging til lengri tíma (hefst á næstu 10 árum)
  3. ÁFANGI – uppbygging til lengri tíma (hefst á næstu 20 árum)
  • Áfangaskipt uppbygging Grindavíkurhafnar gæti verulega aukið tekjur hafnarsjóðs að raunvirði á komandi áratugum.

Áætlunin er sveigjanleg og hægt að aðlaga út frá raunverulegri þróun í eftirspurn hafnarnotenda á næstu árum og áratugum. Þetta styður við heilbrigðan vöxt í hafnarstarfseminni og tryggir samkeppnishæfni Grindavíkurhafnar til framtíðar.