Hálfnuð með Dýrafjarðargöng

26.06.2018

Fréttir
A group of people wearing high visibility jackets, gathering at the entrance of a large tunnel

Dýrafjarðargöng

Dýrafjarðargöng munu liggja á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Þau munu koma í stað núverandi vegar yfir Hrafnseyrarheiði og rjúfa þannig vetrareinangrun norðanverðs Arnarfjarðar. Vestfjarðavegur mun í framhaldinu styttast um 27,4 km.

Hálfnuð með Dýrafjarðargöng

Göngin verða 5,6 km löng með vegskálum, en lengd í bergi er 5,3 km. Gangagröftur hefur gengið mjög vel og mánudaginn 18. júní 2018 var gangagröftur formlega hálfnaður, þegar lengd ganganna var orðin 2.652 m.

Göngin og nýir vegir sem byggðir verða samhliða munu verða um 13,7 km og liggja frá Mjólkárvirkjun að Dýrafjarðarbrú. Hrafnseyrarheiði er að jafnaði lokuð yfir vetrartímann í um 5 – 6 mánuði, þannig að í lok þessarar framkvæmdar mun vera kominn heilsársvegur að norðanverðum Arnarfirði. Þaðan liggur Vestfjarðavegur áfram til suðurs yfir Dynjandisheiði að Flókalundi á Barðaströnd. Dynjandisheiði hefur einnig verið lokuð yfir veturinn. Undirbúningur að þeirri vegagerð er hafinn og er það verkefni nú í umhverfismatsferli.

Vinna við Dýrafjarðargöng hófst sumarið 2017. Byrjað var í Arnarfirði, þaðan sem 3,7 km verða grafnir, að því loknu verður borbúnaður færður yfir í Dýrafjörð þaðan sem 1,6 km verða grafnir. Vinna við aðstöðusköpun í Arnarfirði hófst í júní 2017, fyrsta sprenging í göngum var 14. september sama ár.

Gangagröfturinn hefur gengið mjög vel, mesta vikuframvindan hefur verið 105 m og í maí 2018 voru grafnir yfir 400 m. Nú er lagt allt kapp á að ljúka gangagrefti Arnarfjarðarmegin og flytja borbúnaðinn í Dýrafjörð áður en vetur skellur á og heiðarnar lokast. Eins og staðan er núna er allt útlit fyrir að það gangi eftir. Gegnumbrot í göngunum er áætlað í júní 2019 og verklok í september 2020

Verktakar við verkið eru Metrostav frá Tékklandi og Suðurverk . Verkkaupi er Vegagerðin og hefur EFLA með höndum eftirlit og umsjón á verkstað í samstarfi við Geotek.