Hávaðavarnir við Hamranes tengivirkið

02.03.2016

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

EFLA verkfræðistofa kom nýverið að hönnun hávaðavarna við Hamranes tengivirkið í Hafnarfirði. Við tengivirkið eru stórir spennar sem gefa frá sér stöðugan nið sem veldur ónæði í nærliggjandi íbúðarbyggð.

Hávaðavarnir við Hamranes tengivirkið

Í upphafi verks voru framkvæmdar ítarlegar hljóðmælingar við tengivirkið og í nálægri íbúðarbyggð. Í kjölfar mælinganna voru útbúin hljóðkort af svæðinu, þannig að hægt væri að meta umfang og eðli vandans. Hljóðkortin voru útbúin með hljóðvistartölvulíkani (SoundPlan) og voru kvörðuð miðað við niðurstöður mælinganna, til að gefa sem nákvæmasta mynd af ástandinu.

Hljóðdreifing frá tengivirkinu fyrir breytingu

Greiningarvinnan leiddi m.a. í ljós að hávaðinn frá spennunum liggur að miklu leyti á lágum tíðnum, sem gerði verkefnið meira krefjandi en ella, en almennt er erfiðara að hamla útbreiðslu lágtíðnihávaða en hávaða sem liggur á hærri tíðnum, s.s. umferðarhávaða. Lágtíðnihávaði á auðveldara með að berast í gegnum hversskyns mannvirki og jafnframt hafa langar bylgjulengdir lágtíðnihljóðs þau áhrif að hljóðbylgjurnar geta ?sveigst fram hjá" mótstöðum sem þær mæta.

Að lokinni kortlagningu var ráðist í hönnun endurbóta, sem voru útfærðar með stuðningi hljóðvistarlíkansins. Hannaðir voru hljóðveggir við tvo háværustu spennana, sem skerma af hávaðaútbreiðslu frá spennunum til íbúðarbyggðar. Vegna mikillar lágtíðniorku í hávaðanum var ákveðið að veggirnir yrðu steyptir og að þeir væru býsna háir, til að tryggja fullnægjandi hljóðskermun. Þar að auki eru veggirnir klæddir að innan með hljóðísogsefnum, sem eyða hluta hljóðorkunnar sem spennarnir gefa frá sér.

Hljóðdreifing frá tengivirkinu eftir breytingu

Auk hljóðveggjanna var ákveðið að hljóðmön við tengivirkið yrði hækkuð um 2,5 m, bæði til að minnka hávaðaútbreiðslu og til að bæta ásýnd tengivirkisins.

EFLA sá um greiningu og kortlagningu hávaðans, hljóðhönnun endurbóta, burðarþolshönnun hljóðveggja, hönnun hljóðmanarinnar og eftirlit með framkvæmdinni.

Ístak annaðist framkvæmdina, sem er að mestu leyti lokið. Til stendur að fram fari hljóðmælingar að verki loknu þar sem árangur framkvæmdarinnar verður kannaður.