Hef gaman af mannlega þættinum

03.09.2022

Fréttir
A portrait of a young man with a big smile

Egill Milan Gunnarsson.

„Það hefur almennt séð gengið ágætlega,“ segir Egill Milan Gunnarsson sem starfaði sem sumarstarfsmaður hjá EFLU í sumar. „Það kom oft fyrir að ég festist í hinum ýmsu verkefnum og á köflum var erfitt að læra á forritin sem ég þurfti að nota, en það var létt að fá aðstoð og ég er nokkuð sáttur með það sem ég hef skilað af mér fram að þessu,“ bætir þessi 24 ára Reykvíkingur við.

Hef gaman af mannlega þættinum

Í sumar vann hann í stjórnkerfateymi á iðnaðarsviði EFLU. „Ég byrjaði sumarið á að vinna við að sækja mælingar úr aflmæli og birta í InTouch sem er skjámyndaforrit. Svo fékk ég að vinna við að teikna kerfismynd fyrir stjórnkerfið í nýju kolefnisförgunarstöðinni Coda Terminal,“ segir Egill Milan sem var einnig að teikna og forrita skjámyndir fyrir stækkun fiskmjölsverksmiðju Sílldarvinnslunar á Neskaupstað. „Síðustu daga hef ég fengið að vinna við forritun nýrrar ljósastýringar í Laugardalshöll.“

Mjög lærdómsríkt

Hann segir að reynsla sumarsins muni nýtast honum vel í framtíðinni. „Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í teymisvinnu á atvinnumarkaði og ég held að sú reynsla muni nýtast mér í framtíðinni,“ segir Egill Milan og bætir við að fróðlegt hafi verið að vinna við raunveruleg verkefni sem verða notuð af öðru fólki. „Þegar verkefni hefur notanda þarf að huga að ýmsu sem ég ekki hef þurft að gera í skólaverkefnum. Ég hef svolítið gaman af mannlega þættinum í svona verkefnum og geri ráð fyrir að sú reynsla muni líka nýtast mér,“ segir hann.

Hann er ekki síður ánægður með hvernig starfsfólk EFLU hefur reynst honum í sumar. „Bæði starfslega og félagslega hefur verið ánægjulegt að kynnast starfólkinu. Oftast er létt að fá aðstoð eða álit frá verkstjóra eða öðrum með reynslu af tilteknu vandamáli. Þegar ég vann við aflestur aflmælisins fékk ég til dæmis aðstoð í marga klukkutíma samtals og það var mjög lærdómsríkt fyrir mig,“ segir Egill Milan.

Egill Milan er í meistaranámi í rafmagnsverkfræði við KTH í Stokkhólmi. Fyrir utan það segir hann framtíðina að mestu óráðna. „Eftir nám stefni ég á að koma aftur heim en ég hef ekki velt því fyrir mér neitt frekar,“ segir Egill Milan að lokum.