Helga Jóhanna í nýju loftslagsráði

05.06.2024

Fréttir
Andlitsmynd af konu

Loftlagsráð Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélags hjá EFLU.

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélags hjá EFLU, var nýverið skipuð í loftlagsráð. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í ráðið.

Veita stjórnvöldum aðhald

Loftlagsráð er skipað níu fulltrúum sem hafa reynslu og þekkingu af loftslagsmálum og hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.

Helga hefur mikla reynslu á sviði loftlagsmála og ljóst er að hún mun reynast ráðinu vel í verkefnum þess. Halldór Þorgeirsson, fyrrum yfirmaður skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) er skipaður formaður ráðsins og Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands sinnir hlutverki varaformanns.

Aðrir aðilar í ráðinu eru Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur og formaður vísindanefndar um loftslagsmál, Stefán Þór Eysteinsson, fulltrúi bæjarráðs Fjarðabyggðar, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga, Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, f.h. heildarsamtaka launþega, Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, f.h. Samstarfsnefndar háskólastigsins, og Þorgerður María Þorbjarnardóttir jarðfræðingur og formaður Landverndar, f.h. umhverfis- og náttúruverndarsamtaka.

Þá eru einnig tveir varafulltrúar frá háskólasamfélaginu, Helga Ögmundardóttir, dósent við Háskóla Íslands og Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Mikil þekking innan ráðsins

Loftslagsráð var fyrst sett á fót árið 2018 og aftur 2019 í kjölfar breytinga á lögum um loftslagsmál. Fulltrúar loftslagsráðs skulu búa yfir þekkingu og reynslu á a.m.k. einum af eftirtöldum málaflokkum á sviði loftslagsmála:

  • Loftslagsrétti, stjórnsýslu og stefnumótun.
  • Loftslagsvísindum, áhættugreiningum og náttúruvá.
  • Skipulagi og landnýtingu.
  • Hagrænum og samfélagslegum greiningum.
  • Samfélagslegum breytingum og réttlátum umskiptum.
  • Líffræðilegum fjölbreytileika, kolefnishringrás lands og vistkerfisþjónustu.
  • Nýsköpun og tækniþróun.
  • Orkumálum í samhengi orkuskipta og kolefnishlutleysis.

Áhugavert verður að fylgjast með störfum þessa kröftuga hóps og óskar starfsfólk EFLU Helgu innilega til hamingju.