Hljóðgjöf og hávaðadreifing frá bifreiðum rannsakað

02.07.2019

Fréttir
A line up of cars on a road with a barren landscape in the background

Til að framkvæma mælingarnar lánaði HEKLA þrjár VW Golf fólksbifreiðar sem ganga fyrir mismunandi aflgjafa, þ.e. bensín/metan, dísel og rafknúinn.

EFLA vinnur að rannsóknarverkefni þar sem skoðað er hvaða áhrif mismunandi aflgjafar frá bifreiðum kunna að hafa á hljóðstig í umhverfinu. Í vikunni fór athugunin fram og bauð HEKLA þrjár bifreiðar að láni til verkefnisins.

Hljóðgjöf og hávaðadreifing frá bifreiðum rannsakað

Rannsóknin felur í sér að mæla hljóðgjöf og hávaðadreifingu frá sambærilegum bifreiðum sem ganga fyrir ólíkum aflgjafa, (diesel, bensín og rafmagni) og bera niðurstöðurnar saman. Verkefnið er framkvæmt af EFLU verkfræðistofu og styrkt af rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Niðurstöðurnar verða settar fram í skýrslu í haust og að öllum líkindum kynntar á ráðstefnum hérlendis og erlendis.

VW Golf fólksbifreiðar frá HEKLU í samanburðarhóp

Til að framkvæma athugunina þurfti þrjár bifreiðar sem væru „eins“ fyrir utan tegund hreyfils og var það kærkomið að bílaumboðið HEKLA var tilbúið til að útvega þrjár bifreiðar til verkefnisins. HEKLA lánaði þrjár VW Golf fólksbifreiðar sem ganga fyrir ólíkum aflgjafa, þ.e. með bensín/metan hreyfli, dísel hreyfli og rafknúinn.

Mælingarnar voru framkvæmdar þannig að hljóðstig var mælt í þremur fjarlægðum frá vegi, á meðan bifreiðunum var ekið framhjá (120 m vegkafla). Aksturhraði var 15 km/klst, 30 km/klst, 50 km/klst, 70 km/klst og 90 km/klst. Með þessu móti var hljóðstig, tíðniróf og hávaðadreifing kortlögð frá þessum þremur gerðum aflgjafa miðað við mismunandi fjarlægðir frá vegi og breytilegs hraða.

HEKLA fær okkar bestu þakkir fyrir lánið á bifreiðunum það var ánægjulegt að keyra þessa bíla og höfðu bílstjórarnir orð á því hvað e-Golf rafbíllinn væri einstaklega sprækur og skemmtilegur í akstri.

Nánari upplýsingar um hljóðmælingar og aðra hljóðráðgjöf hjá EFLU.