Hólasandslína 3 tekur á sig mynd

14.07.2021

Fréttir
A large metallic structure, possibly power line with a mountain in the background

Möstur Hólasandslínu. Mynd: Mannvit.

Möstur Hólasandslínu 3 rísa nú á Hólasandi á Norðurlandi. Línan er hluti af nýrri byggðalínu Landsnets og annaðist EFLA útboðs- og verkhönnun á bæði loftlínu og 10 km jarðstreng, þeim lengsta á landinu.

Hólasandslína 3 tekur á sig mynd

Hólasandslína 3 (HS3) er hluti af nýrri 220 kV byggðalínu Landsnets sem hófst með lagningu Kröflulínu 4 milli Kröflu og Hólasands árið 2017. Í kjölfarið hófust framkvæmdir við lagningu Kröflulínu 3 sem liggur milli Kröflustöðvar og Fljótsdals. Þeirri framkvæmd er að ljúka en framkvæmdir við Hólasandslínu 3 eru komnar vel á veg.

Hólasandslína 3 liggur milli nýs tengivirkis á Hólasandi og tengivirkis við Akureyri. Um er að ræða loftlínu sem borin er uppi af stöguðum stálröramöstrum. Línan liggur í megindráttum samsíða eldri byggðalínu (KR1) og endar loftlínan í landi Kaupangs við austanverðan Eyjafjörð. Þar tekur við jarðstrengur sem þverar Eyjafjarðará og liggur svo að stærstum hluta samsíða loftlínum ofan við byggðina á Akureyri að tengivirki Landsnets við Rangárvelli.

EFLA hefur átt í farsælu samstarfi við Landsnet og annaðist útboðs- og verkhönnun á bæði loftlínu og jarðstreng.

A construction site with workers in high visibility jacket, a crane, pipes on the ground and vehicles

Vinna við Hólasandslínu 3. Mynd: Mannvit.

Markverðar staðreyndir um línuna:

  • Þverun Laxárdals verður lengsta haf í flutningskerfi Landsnets, rúmir 1.000 m
  • Notaðir verða í fyrsta skipti fóðraðir bergboltar (e. micropiles) við grundun mastra hér á landi sem minnka umhverfisáhrif og jarðrask
  • Jarðstrengurinn í Eyjafirði verður lengsti 220 kV jarðstrengskafli á landinu, tæpir 10 km
  • Lagt verður annað aðskilið strengsett sem nýtist fyrir Kröflulínu 1 sem tekin verður niður í Eyjafirði
  • Jarðstrengirnir þvera þrjár kvíslar Eyjafjarðarár
  • Byggð verður sérstök strengbrú yfir Glerá sem enn fremur nýtist almenningi til útivistar
  • Lengd loftlínu er tæpir 62 km
  • Fjöldi mastra í línunni er 184 stk