Hringrásarveggurinn á HönnunarMars

04.04.2025

Fréttir
Veggur hlaðinn með glerflöskum.

Ljósmyndir | Basalt Architects

EFLA tók þátt í þróun og hönnun Hringrásarveggjarins sem verður til sýnis á HönnunarMars, á samsýningunni Gjörið svo vel að líta inn í Rammagerðinni. Verkefnið er samstarfsverkefni EFLU, Reykjavík Glass, Basalt arkitekta og Jáverks, og hlaut styrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu árið 2022.

Sérfræðiþekking sem nýtist

EFLA hefur frá upphafi tekið virkan þátt í verkefninu og lagt fram sérfræðiþekkingu á sviði burðarþols, hljóðvistar og brunavarna. Hringrásarveggurinn er hluti af þróunarvinnu við hringrásarbyggingarefni og stendur sýningin yfir alla helgina.

Í nýjustu útgáfu veggjarins, sem nú er sýnd almenningi, hefur EFLA einnig komið að samsetningu veggjarins og hönnun hljóðþéttingar. Veggurinn er 2,9 metrar á lengd og 2,3 metrar á hæð.

Veggur hlaðinn með glerflöskum.

Endurnýta, endurvinna og endurnota

Markmið verkefnisins er að styðja við hringrásarhagkerfið með þróun innri vegglausna úr endurunnum efnum. Núverandi veggur er úr endurnýttu gleri frá Íspan Glerborg og unninn í samstarfi við Reykjavík Glass. Glereiningarnar eru hannaðar þannig að hægt er að taka þær niður og setja upp á nýjum stað með einföldum hætti – án þess að tapa gæðum.

Hugmyndafræðin að baki veggnum gengur út á að skapa efnisbanka – geymslu á verðmætum efnivið fyrir framtíðina, þar sem öll efni veggjarins má endurnýta, endurvinna og endurnota.

Við hvetjum öll til að líta við og kynna sér þetta spennandi verkefni sem sýnir í verki hvernig hægt er að nýta úrgang á nýstárlegan og sjálfbæran hátt í byggingariðnaði framtíðar.