Málþing EFLU, Orkuspár sem vísa veginn, tókst afar vel og var húsfyllir á viðburðinum þar sem fjölbreyttur hópur fagfólks og áhugafólks um orkumál kom saman til að ræða mikilvægi orkuspáa í stefnumótun og framtíðarsýn þjóðarinnar.
Mikilvægi áreiðanlegra orkuspáa
Málþingið fór fram mánudaginn 5. maí í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4. Tilefnið var að heiðra minningu Jóns Vilhjálmssonar, frumkvöðuls á sviði orkuspáa, sem hefði orðið sjötugur þennan dag.
Á dagskrá voru margvísleg og vönduð erindi frá sérfræðingum úr orkuiðnaði og stjórnsýslu, þar á meðal frá EFLU, Landsneti, RARIK og Umhverfis- og orkustofnun. Einnig fóru fram líflegar pallborðsumræður þar sem dregin voru fram helstu tækifæri og áskoranir sem blasa við í orkuskiptum og viðhaldi öflugs og hagkvæms orkukerfis.

Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi áreiðanlegra orkuspáa fyrir tímasetningu fjárfestinga í orkuinnviðum, sem og samspil spáa við önnur samfélagsleg markmið á borð við kolefnishlutleysi. Þá var minningu Jóns Vilhjálmssonar gerð góð skil, en hann starfaði að orkuspám í yfir fjóra áratugi og hafði djúpstæð áhrif á þróun aðferðafræði sem enn er notuð með góðum árangri í dag.
EFLA þakkar öllum sem mættu kærlega fyrir komuna og sérstaklega þeim sem tóku þátt með fyrirlestrum og umræðum. Þátttakan og umræðurnar staðfesta að áhuginn og þörfin fyrir faglega umræðu um framtíð orkumála er mikil og nauðsynleg.
- 1 / 4
- 2 / 4
- 3 / 4
- 4 / 4