Hvað gerist þegar vindinn lægir?

31.01.2023

Fréttir
A man and a woman seated at a table inside an office with a view of a cityscape through the window behind them

Landsvirkjun heldur opinn fund um aflstöðu raforkukerfisins og áhrif á þróun vindorku. Fundurinn verður haldinn á Reykjavík Natura Hotel fimmtudaginn 2. febrúar kl. 9:00. Þar verður fjallað um stöðu mála í raforkukerfinu og þær áskoranir sem á því steðja.

Hvað gerist þegar vindinn lægir?

Kristinn Arnar Ormsson, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, verður með erindi á fundinum. Auk þess verður Kolbrún Reinholdsdóttir, sem leiðir teymi orkumálaráðgjafar EFLU, þátttakandi í pallborðsumræðum ásamt Katli Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Zephyr Iceland, Sverri Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóra þróunar- og tæknisviðs Landsnets og Gunnari Guðna Tómassyni, framkvæmdastjóra vatnsafls hjá Landsvirkjun.

Á fundinum verður farið yfir þá vegferð sem er að hefjast á Íslandi með innleiðingu breytilegra orkugjafa, þar á meðal vindorku, sem þarfnast mikils sveigjanleika í raforkukerfinu. Um er að ræða verkefni sem krefst langvarandi samstarfs allra hagaðila. Á sama tíma er raforkukerfi Íslands að glíma við þrönga aflstöðu og mun gera áfram næstu ár. Kafað verður ofan í ástæður þess og hvaða áskoranir þessar þrengingar geta valdið.

Eftirfarandi erindi verða flutt á fundinum:

  • Greining EFLU á horfum í afljöfnuði til 2030

Kristinn Arnar Ormsson, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU

  • Aflið í íslenska raforkukerfinu

Ívar Baldvinsson, sérfræðingur í vinnsluáætlunargerð hjá Landsvirkjun

  • Þróun vindorku á Íslandi og hlutverk stýranlegs vatnsafls

Conor Byrne, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun

Fundurinn verður á Reykjavík Natura Hotel við Nauthólsveg 52 og er skráning þegar hafin . Húsið verður opnað 8:30 og boðið upp á léttan morgunverð.